Faðir manns sem festist í víta­hring smá­lána hefur leitað til Neyt­enda­sam­takanna vegna þeirra háu vaxta sem syni hans hefur verið gert að greiða í kjöl­far lán­tökunnar. Sonur mannsins tók um 100 smá­lán fyrir sam­tals 1,9 milljónir króna á síðasta ári og hefur nú verið krafinn um vexti fyrir yfir 500 þúsund krónur. Neyt­enda­sam­tökin segja að um sé að ræða ó­lög­lega vexti og gera kröfu um endur­greiðslu.

Frá þessu er greint á vef­síðu Neyt­enda­sam­takanna. Þar segir að sonurinn hafi á síðast­liðnu rúmu ári tekið smá­lánin hundrað, og að þau hafi öll verið veitt í 15 til 30 daga. Sam­tals hafi fyrir­tækin heimtað um 525 þúsund krónur í vexti.

Vextirnir allt að 3000 prósent

„Út­reikningur Neyt­enda­sam­takanna sýna að sam­kvæmt lögum hefðu smá­lána­fyrir­tækin í mesta lagi mátt inn­heimta 60 þúsund króna í vexti. Vextir smá­lána­fyrir­tækjanna voru frá 1.500% til 3.000% á árs­grund­velli, en há­mark leyfi­legra vaxta sam­kvæmt lögum er 50% auk Seðla­banka­vaxta,“ segir á vef Neyt­enda­sam­takanna. Þannig hafi maðurinn greitt um 465 þúsund krónur hærri vexti en leyfi­legt hefði verið að inn­heimta.

Maðurinn leitar nú réttar síns og hefur gert kröfu um endur­greiðslu upp­hæðarinnar, og ætla sam­tökin að að­stoða hann í um­leitan sinni. Sam­tökin segja fjölda fólks leita til sín og heyrt reynslu­sögur af fólki sem hafi lent í víta­hring smá­lána, og að sumir hverjir hafi misst al­eigu sína og leigu­hús­næði „þar sem ó­lög­lega háar upp­hæðir hafa verið teknar af banka­reikningum þess“. Starf­semi smá­lána­fyrir­tækja sé með öllu ó­lög­leg.

Fyrirtæki verði að hætta að leggja þeim lið

„Má með sanni segja að smá­lána­farganið stappi nærri far­aldri og al­ger­lega ó­við­unandi að þessi ó­lög­lega starf­semin fái þrifist.“

Sam­tökin segja að þetta þurfi að stoppa og beina til­mælum sínum til fyrir­tækja að að­stoða smá­lána­fyrir­tækin ekki á nokkurn hátt; hvort sem er með aug­lýsinga­sölu, að sinna greiðslu­miðlun þeirra, inn­heimtu eða á annan hátt geri þeim kleift að halda á­fram starf­semi sinni.

„Það er einungis með að­stoð eða grand­vara­leysi venju­legra fyrir­tækja sem þessi starf­semi þrífst,“ segja sam­tökin.