Festi hefur náð samkomulagi um sölu á verslun Kjarvals á Hellu en Samkeppniseftirlitið var nálægt því að hefja rannsókn á mögulegum brotum Festi vegna þess hversu salan hefur dregist á langinn. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Festi.

Festi gerði sátt við Samkeppniseftirlitið 30. júlí 2018 vegna kaupa félagsins á Hlekk. Samkvæmt sáttinni skyldi Festi meðal annars selja verslun Kjarvals á Hellu. Þar sem vafi lék á söluhæfi verslunarinnar á Hellu var jafnframt mælt fyrir um það í sáttinni að ef ekki tækist að selja verslunina á Hellu bæri Festi að selja aðrar eignir félagsins á þessu svæði á grundvelli sömu skilmála.

Áður hafði Festi náð samkomulagi um sölu verslunarinar en ekkert varð af afhendingu vegna andstöðu leigusala húsnæðisins. Gerði Festi þá samkomulag um sölu verslunar Krónunnar á Hvolsvelli en í febrúar 2020 hafnaði sveitarfélagið Rangárþing eystra að framselja leigusamning um húsnæðið og varð því ekki af þeim viðskiptum.

„Í desember 2020 tilkynnti Samkeppniseftirlitið að það hygðist hefja rannsókn á mögulegum brotum Festi gegn sáttinni og óskaði eftir upplýsingum og nánari skýringum frá félaginu á nokkrum atriðum þar með talið sölu verslunarinnar á Hellu,“ segir í ársreikninginum.

Skömmu áður eða í byrjun desember 2020 tókst samkomulag við annan aðila um kaup á verslun Kjarvals á Hellu og samþykkti leigusali söluna í janúar 2021. Málið bíður nú samþykkis Samkeppniseftirlitsins en Festi svaraði formlega fyrirspurnum þess í febrúar 2021. Ef salan verður samþykkt þá hefur öllum skilyrðum sáttarinnar verið fullnægt í samræmi við efni þeirra að mati félagsins.