Festi, móðurfélag N1, Krónunnar, Elko og fleiri félaga birti uppgjör 4. ársfjórðungs 2021 og ársreikningi fyrir árið í gær. Hagnaður ársins var ríflega 6,5 milljarðar sem er nær þreföldun á hagnaði milli ára, en árið 2020 hagnaðist félagið um tæplega 2,4 milljarða. Án endurmats fasteigna félagsins hefði hagnaðurinn numið tæplega 5 milljörðum á síðasta ári.

Helstu niðurstöður á 4. ársfjórðungi voru:

  • Framlegð af vöru- og þjónustusölu nam 6.522 millj. kr. samanborið við 5.372 millj. kr. á 4F 2020, sem samsvarar 21,4 prósenta hækkun milli ára.
  • EBITDA nam 2.809 millj. kr. samanborið við 1.746 millj. kr. á 4F 2020, sem jafngildir 60,8 prósenta hækkun.
  • Framlegð af vörusölu var 24,7 prósent á 4F 2021 en framlegðin var 23,4 prósent í sama fjórðungi árið áður.
  • Hagnaður af sölu eigna nam 276 millj. kr. á 4F 2021.
  • Hagnaður á 4F 2021 nam 1,354 millj. kr. samanborið við 526 millj. kr. á 4F 2020.
  • Eigið fé í lok árs 2021 nam 33,9 milljörðum og eiginfjárhlutfall 39,4 prósentum samanborið við 35,7 prósent í lok árs 2020.
  • Nettó vaxtaberandi skuldir án leiguskuldbindinga voru 23,3 milljarðar í lok ársins samanborið við 30 milljarða í lok 2020 sem er lækkun um 6,7 milljarða á milli ára.

Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi:

„Rekstur Festi gekk vel á nýliðnu rekstrarári en árið markaði viss tímamót þar sem öll fyrirtæki samstæðunnar skiluðu sinni bestu afkomu frá upphafi.“