Smásölurisinn Festi hagnaðist um 51 milljóna króna á fyrsta fjórðungi ársins samanborið við 61 milljón á sama tímabili í fyrra.

Fjölgun félaga í samstæðu skýrir að mestu hækkanir á tekjum og gjöldum á fyrsta fjórðungi 2019 í samanburði við fyrsta fjórðung 2018 og gerir það samanburð milli tímabila erfiðan.

EBITDA að undanskildum kostnaði við kaup á Hlekk nam 1.367 milljónum króna á á fyrsta fjórðungi 2019 samanborið við 436 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Minni umsvif voru í sölu annarra vara en eldsneytis í samstæðunni en gert hafði verði ráð fyrir á fjórðungnum en þó skar Krónan sig úr þar sem sala var umfram væntingar.

Selt magn af bensíni og gasolíu minnkaði um 2,4 prósent á milli ára, að mestu leyti á höfuðborgarsvæðinu.

Eigið fé var 26.021 milljónir króna og eiginfjárhlutfall 32 prósent í lok fjórðungsins.

Haft er eftir Eggerti Þór Kristóferssyni, forstjóra Festar, að byrjunin á fyrsta ársfjórðungi hafi verið góð þrátt fyrir þá verkfallsógn sem blasti við, loðnubrestinn og aðrar utankomandi aðstæður sem hefðu getað sett strik í reikninginn.

„Góður gangur er hjá Krónunni og var sala umfram væntingar á fjórðungnum sem verður að teljast mjög góður árangur. Hér innan Festi sjáum við ánægjulega þróun sem gefur góð fyrirheit um framtíðina. Rekstur þeirra fyrirtækja sem saman mynda þessa samstæðu gengur vel og samþætting þeirra er komin umfram áætlanir. Það eru því jákvæð merki víða og við finnum vel fyrir góðum byr í seglin,“ segir Eggert Þór.