Árið 2019 var hagnaður ferðaþjónustunnar fyrir skatta 3,2 milljarðar króna og umskiptin stafa af miklum tekjusamdrætti. Tekjur ferðaþjónustunnar á síðasta ári námu 278,2 milljörðum króna en voru 627,3 milljarðar árið áður og drógust því saman um 349 milljarða, eða 56 prósent, milli ára. Leita þarf aftur til ársins 2009 til að finna lægri tekjur en þá námu þær 257,2 milljörðum. Breytingin milli ára skýrist fyrst og fremst af mikilli fækkun erlendra ferðamanna. Mörg fyrirtæki, meðal annars hótel, lokuðu tímabundið.
Rekstrarkostnaður minnkaði líka
Rekstrarkostnaður dróst einnig verulega saman sem dró úr áfallinu vegna tekjufalls. Vöru- og hráefnisnotkun dróst saman um 58 prósent, eða eilítið umfram tekjusamdráttinn. Þarna er um að ræða breytilegan kostnað sem helst mjög í hendur við tekjur. Launakostnaður lækkaði um 38 prósent og annar rekstrarkostnaður um 46 prósent. Þessi tveir kostnaðarliðir drógust því minna saman en sem nam tekjusamdrættinum. Launþegum í greininni fækkaði úr rúmlega 28 þúsund í rúmlega 19 þúsund, eða um 31 prósent. Vinnumarkaðsaðgerðir stjórnvalda eru meðal þess sem olli því að launakostnaður dróst meira saman en sem nemur fækkun starfsfólks
Hlutabótaleiðin gerði fyrirtækjum kleift að minnka starfshlutfall og þar með laun starfsfólks og Atvinnuleysistryggingarsjóður greiddi svo starfsmanninum það sem upp á vantaði, upp að ákveðinni upphæð. Í nýlegri könnun sem Ferðamálastofa lét vinna fyrir sig kemur fram að 60 prósent fyrirtækja í ferðaþjónustu nýtti sér hlutabótaleiðina og að yfir helmingur þeirra nýtti sér hvers kyns styrki sem boðið var upp á til að létta undir með greininni, meðal annars tekjufalls-, viðspyrnu- og ráðningarstyrki.
Veiking krónunnar orsök hærri fjármagnskostnaðar
Fjármagnskostnaður jókst um 13,2 milljarða króna. eða 94 prósent. Aukinn fjármagnskostnað má að töluverðu leyti rekja til þess að umtalsverður hluti lána ferðaþjónustunnar er í erlendri mynt. Gengi krónunnar var 10,4 prósent veikara í árslok 2020 en 2019 og skýrir veiking krónunnar því aukinn fjármagnskostnað að nokkru leyti. Á þessu ári hefur krónan styrkst og er nú 3,2 prósentum sterkari en hún var við síðustu áramót. Sú styrking mun hafa jákvæð áhrif á þróun fjármagnskostnaðar fyrirtækjanna. Mörg lána ferðaþjónustunnar eru þó enn í frystingu hjá lánastofnunum sem hefur létt byrðina við að standa í skilum.
Betra í ár og bjartsýni fyrir næsta ár
Í könnun á vegum Ferðamálastofu kemur fram að reksturinn í ferðaþjónustu gekk mun betur í sumar en í fyrrasumar. Veltan í sumar var nokkuð eða mikið meiri hjá 76 prósentum fyrirtækjanna en á sama tímabili í fyrra. Meira en þriðjungur fyrirtækjanna skilaði meiri rekstrarhagnaði í sumar en sumarið 2019. Hjá fimmtungi fyrirtækja var rekstrarhagnaðurinn svipaður. Fyrirtækin líta nokkuð bjartsýnum augum fram á veginn. Þannig telja rúmlega 80 prósent fyrirtækja að eftirspurn frá erlendum ferðamönnum muni aukast á næsta ári. Flestir búast við talsvert mikilli fjölgun erlendra ferðamanna. Hagfræðideild Landsbankans spáir því að um 1,5 milljónir erlendra ferðamanna heimsæki Ísland á næsta ári.