Ferða­þjónustan skapaði fjögur af hverjum tíu störfum sem urðu til á árunum 2010 til 2018. Starfs­fólki á vinnu­markaði hér á landi fjölgaði um rúm fjöru­tíu þúsund á þessum átta árum, þar af fjölgaði starfs­fólki í ferða­þjónustu um sex­tán þúsund. Mest var fjölgunin í rekstri gisti­staða og veitinga­sölu og -þjónustu.

Þetta kemur fram í nýrri Hag­s­já Lands­bankans, en WOW air var enn í rekstri fyrstu þrjá mánuði ársins 2019 og gætir á­hrifa gjald­þrots fé­lagsins því ekki í þessum tölum.

„Nokkur fækkun starfs­fólks var í greininni milli 2008 og 2009 en svo mikil og stöðug fjölgun allt fram til ársins 2018. Meðal­fjölgun á ári á öllu tíma­bilinu var 8,7% og frá árinu 2010 fram til 2018 var meðal­fjölgunin á ári 11,6%,“ segir í Hag­s­jánni.

Næst mest var fjölgun í byggingar­starf­semi og mann­virkja­gerð, eða um 5.700 manns. Frá 2008 til 2010 hafði starfs­fólki í greininni fækkað um helming, úr 15 þúsund manns niður í 7.500. Rekstur ferða­skrif­stofa og tengd starf­semi var með þriðju mestu fjölgunina og þar á eftir komu flutningar með flugi og smá­sölu­verslun. Þær níu greinar sem voru með mesta fjölgun starfa á þessu tíma­bili skiluðu um 27.500 nýjum störfum, eða tæp­lega 70 prósent nýrra starfa í hag­kerfinu á þessum tíma.

„Tölurnar um ferða­þjónustuna ná einungis fram í mars á þessu ári, en á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 fækkaði um u.þ.b. 630 manns í ein­kennandi at­vinnu­greinum ferða­þjónustu þrátt fyrir að WOW air hafi enn verið í rekstri á þeim tíma. Tölur um fjölda starfs­fólks í hag­kerfinu öllu á fyrsta árs­fjórðungi eru ekki enn komnar fram.“

Fækkunin var lang­mest í fjár­mála­þjónustu, að undan­skildum tryggingar­fé­lögum og líf­eyris­sjóðum, en þar fækkaði um 1.100 manns, til við­bótar við fækkun um 1.300 manns á tíma­bilinu 2008 til 2010, eða um 2.400 manns frá 2008 til 2018. Næst­mesta fækkunin var í út­gáfu­starf­semi og í fisk­veiðum og fisk­eldi.

Hag­s­jána í heild má lesa hér.