Kínverskir ferðamannahópar hafa verið að afbóka ferðir sínar og gistingar á Íslandi í janúar og febrúar vegna ferðabannsins sem kínversk yfirvöld settu á til að sporna við útbreiðslu kórónaveirunnar frá Wuhan í Kína. Ferðabannið nær til hópa en ekki einstaklinga sem ferðast frá Kína.
„Við höfum fengið töluvert af afbókunum hjá hótelum okkar í Reykjavík, Suðurlandi, Suðausturlandi og Vesturlandi,“ segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, í samtali við Fréttablaðið.
Hann segir fjöldi afbókana mismunandi eftir hótelum en að afbókanirnar nái fram í febrúar. Davíð Torfi segir að ferðabannið gæti sett strik í reikninginn í ferðaþjónustunni almennt á Íslandi.
Kínverjar eru í hópi þeirra ferðamanna sem hafa farið vaxandi hér á landi á meðan aðrir fara minnkandi. Því er þetta stórt hlutfall af ferðamönnum sem Ísland mun missa.
Tæp fjögur prósent í ferðabanni
Um 60 prósent af kínverskum ferðamönnum sem koma hingað til lands ferðast í hópum. Samkvæmt tölum frá Ferðamálastofu Íslands komu 7.728 manns frá Kína í janúar árið 2019 og 9.829 manns í febrúar.
„Þetta eru töluvert af hópum sem við höfum verið að sinna sem eru ekki að koma,“ segir Davíð Torfi.
Að öllu óbreyttu gæti Ísland misst rúmlega 5800 ferðamenn í febrúar vegna ferðabannsins.
Rúmlega 149 þúsund manns ferðuðust til Íslands í febrúar á síðasta ári og eru því tæp fjögur prósent af þeim í ferðabanni.