Leiðandi hagvísir Analytica hækkaði áfram í júní og þrátt fyrir ýmsa óvissuþætti eru horfur á efnahagsbata að minnsta kosti fram eftir seinni árshelmingi.

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi Analytica, segir í samtali við Markaðinn að það sé helst þróun í alþjóðamálunum sem sé óvissuþátturinn.

Yngvi Harðarson, framkvæmdastjóri og stofnandi Analytica.

„Framvinda í stríðinu í Úkraínu og þau áhrif sem þetta hefur á hrávöruverð og verðbólgu,“ segir Yngvi og bætir við að það séu vísbendingar um að innlendir hagvísar séu að gefa eftir.

„Það er til dæmis að debetkortavelta innanlands virðist vera að minnka og svartsýni fer vaxandi. Aðrir hagvísar eru upp á við eins og þróun í ferðaþjónustu og innflutningur er að aukast. Það má búast við að hann haldi áfram að aukast samhliða auknum umsvifum í ferðaþjónustu, byggingaframkvæmdum og slíku.“

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis, segir í samtali við Markaðinn að ágætis teikn séu á lofti þó áskoranir séu fram undan.

„Ég myndi segja að heilt yfir séu ágætishorfur þó svo það séu ýmsir óvissuþættir sem geta breytt miklu,“ segir Konráð og bætir við að það sé athyglisvert að það séu misvísandi skilaboð í hagtölum. Það sé þó eðlilegt þar sem ferðaþjónustan sé stór atvinnugrein hér á landi og þegar hún komi til baka verði uppsveiflan meiri hér en annars staðar.

„Það má samt ekki horfa fram hjá því að við erum háð alþjóðlegri þróun. Við erum ekki búin að bíta úr nálinni með þessa miklu verðbólgu, síðan má ekki gleyma kjaraviðræðunum sem eru fram undan og ýmislegt annað en heilt yfir má segja að við séum á ágætis stað.“

Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur sjóðastýringarfyrirtækisins Stefnis.

Konráð segir að fullyrða megi að ferðaþjónustan sé komin til baka af miklum krafti. Umsvifin í ferðaþjónustunni fari að verða svipuð og á árunum 2016 og 2017.„Það er óhætt að segja að ferðaþjónustan er að koma til baka. Okkur varð oft tíðrætt um það á árunum 2016 og 2017 að við værum að drukkna í ferðamönnum. Kortavelta ferðamanna nú er mjög svipuð því sem hún var árið 2019 áður en faraldurinn kom,“ segir Konráð og bendir á að þó megi ekki gleyma að nú sé mikill skortur á bílaleigubílum og þar fram eftir götunum.

„Einnig eru hnökrar á flugvöllum erlendis og fyrr má nú vera þegar risastór atvinnugrein stoppar og fer aftur á fullt á nánast einni nóttu, þá má alveg búast við því að það komi upp einhver vandamál.“

Yngvi segir að tölurnar bendi til þess að ferðamönnum fjölgi verulega.

„Það er til dæmis mikil aukning í kortaveltu þó hún sé ekki hluti af hagvísinum en við sjáum að erlenda kortaveltan er að aukast mikið umfram fjölgun ferðamanna. Það eru jákvæð teikn líka.“Hann bætir við að þó geti blikur verið á lofti því þó horfurnar líti nokkuð vel út fram eftir ári og líklega fram á næsta ár, sé töluverð óvissa þar á eftir.

„Það er ýmislegt sem bætir við að við getum séð viðsnúning í pípunum þó hagvísirinn gefi ekki merki um það.“

Konráð segir að þar sem við séum búin að vera í hröðum og snörpum viðsnúningi getum við búið okkur undir að hagkerfið geti kólnað fyrr eða síðar. Það þurfi ekki endilega að vera slæmt en gæti birst í því að það muni hægja verulega á hagvexti.

„Ef það gerist erlendis þá mun það fyrr eða síðar smitast hingað og við gætum séð það gerast á næsta ári. En þá verður vonandi hagvöxturinn í takt við tvö til þrjú prósent sem er eðlilegt til lengri tíma. Það kæmi mér ekki á óvart ef hagvöxturinn í ár myndi nálgast 6 prósent miðað við hvernig fyrri helmingur þessa árs var.“