Þorsteinn Friðrik Halldórsson
tfh@frettabladid.is
Miðvikudagur 4. mars 2020
06.00 GMT

Ferðaþjónusta á Íslandi hefur orðið fyrir miklum höggum á síðasta eina og hálfa árinu. Kóróna­faraldurinn skekur nú heimshagkerfið og er byrjaður að hafa veruleg áhrif á ferðabókanir. Stoðir íslenskrar ferðaþjónustu voru orðnar veikar fyrir með fækkun ferðamanna og hækkun launakostnaðar. Stjórnendur í atvinnugreininni furða sig á því að stjórnvöld hafi ekki brugðist við stöðunni með afgerandi hætti enda eru miklir hagsmunir undir.

„Það hefur verið doði hjá stjórnvöldum gagnvart ferðaþjónustu þrátt fyrir að hún sé langstærsta atvinnugrein landsins, skapi langmest af gjaldeyristekjum þjóðarinnar og veiti gríðarlegum fjölda fólks vinnu. Ferðaþjónustan er samfélagslega mikilvæg atvinnugrein en það heyrist hvorki hósti né stuna frá stjórnvöldum þegar kreppir að,“ segir Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures.

„Það var að mínu mati hálfgert andvaraleysi þegar WOW fór, líklega vegna þess að áhrifanna fór ekki að gæta strax. Það hefði þurft að grípa til einhverra aðgerða þá, en það er auðvelt að vera vitur eftir á,“ segir Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Hótel Sögu.

„Núna er bókunartímabilið fyrir sumarið í fullum gangi og við fylgjumst með fréttum af veirunni vegna þess að hún getur haft miklar afleiðingar. Síðasta sumar var rólegt og við í ferðaþjónustunni megum alls ekki við slöku sumri í ár,“ bætir hún við.


„Það er mikilvægt að stjórnvöld kynni sér greinina og átti sig á því hversu miklir hagsmunir eru undir.“


Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að staðan í ferðaþjónustunni hafi verið þung í töluverðan tíma. Ferðaþjónustan hafi kallað eftir aðkomu stjórnvalda eftir fall WOW air sem miðar að því að styðja við greinina og hvetja ferðamenn til að koma til landsins.

„Einn þáttur í því er framboð flugsæta og hvernig við getum hvatt flugfélög til að auka framboðið. Það væri mögulega hægt með því að veita afslætti af lendingargjöldum í gegnum Isavia. Annar þáttur er öflugt markaðsstarf. Maður skilur ekki hvers vegna stjórnvöld voru ekki fljótari að bregðast við. Ef viðbrögðin hefðu verið þau að setja strax meiri pening í markaðsstarf og búa til hvata fyrir flugfélög til að koma til landsins hefðum við örugglega ekki séð jafn mikinn samdrátt,“ segir Björn sem bendir á að ferðamenn skili gríðarlegum fjármunum í ríkissjóð í gegnum virðisaukaskatt, áfengisgjöld og önnur opinber gjöld.

„Það má velta því fyrir sér hversu miklum tekjum ríkið hefur tapað frá falli WOW air. Í okkar tilfelli dróst veltan saman um meira en 600 milljónir króna á milli áranna 2018 og 2019. Þetta þýðir töpuð störf og tapaðar skatttekjur,“ segir Björn.

Styrmir hjá Arctic Adventures nefnir að ferðaþjónustan sé tiltölulega óþroskuð atvinnugrein og kannski hafi hún þess vegna ekki náð að stimpla sig inn í stjórnkerfið með sama hætti og sjávarútvegur eða áliðnaður. „Það er mikilvægt að stjórnvöld kynni sér greinina og átti sig á því hversu miklir hagsmunir eru undir.“

Staðan mun ekki batna milli ára

Kórónafaraldurinn bætist við erfiðleikana sem ferðaþjónustan hefur glímt við í kjölfar gjaldþrots WOW air og kyrrsetningar Boeing MAX-vélanna.

Yfir þrjú þúsund manns hafa látist af völdum COVID-19 faraldursins, sem kórónaveiran veldur, á heimsvísu. Faraldurinn var í fyrstu bundinn við Kína en þegar ljóst var í síðustu viku að hann hefði borist til Evrópu greip um sig ótti á mörkuðum. Áhrifin eru nú þegar farin að segja til sín í bókunum á flugferðum og afþreyingu um allan heim. Samtök ferðaþjónustunnar hafa greint frá því að íslensk fyrirtæki hafi fengið fjölda fyrirspurna frá erlendum ferðamönnum sem eiga bókaðar ferðir til landsins. Þeir spyrji um afbókunarskilmála vegna veirufaraldursins.

tafla.jpg

„Ástandið minnir óneitanlega á hvernig þetta var eftir hryðjuverkaárásirnar kenndar við 11. september þegar við stóðum frammi fyrir algjörri óvissu um hver áhrifin yrðu og hversu lengi þau myndu vara. Mun þetta styrkja eða veikja Ísland sem áfangastað og hversu langan tíma tekur að vinna traustið upp aftur?“ spyr Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar TLH, sem fjárfestir í afþreyingartengdri ferðaþjónustu.

Arctic Adventures, sem er eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins, selur og sér um framkvæmd ferða og afþreyingar um allt land, svo sem köfun, snjósleðaferðir, flúðasiglingar, hvalaskoðun, ferðir í ísgöng og hellaferðir. Velta fyrirtækisins er um sjö milljarðar.


„Það er deginum ljósara að staðan hefur ekki batnað og mun ekki batna á þessu ári.“


Arctic Adventures sagði upp níu starfsmönnum, bæði á Íslandi og Vilníus, í lok febrúar og endurskoðaði framboð ferða næstu mánuði til að bregðast við væntum samdrætti í fjölda ferðamanna vegna kóróna­veirunnar.

„Bókunarstaðan hjá okkur er nokkuð góð en auðvitað veit maður ekki hvernig þetta spilast út með veiruna. Við áttum von á erfiðu ári og höfðum sett okkur í stellingar fyrir það, til dæmis með því að lækka rekstrarkostnað og safna lausafé. Síðasta ár var erfitt hjá mörgum fyrirtækjum og það er deginum ljósara að staðan hefur ekki batnað og mun ekki batna á þessu ári,“ segir Styrmir Þór.

„Nýtingarhlutfall fastafjármuna, sem er einn helsti rekstrarmælikvarðinn í ferðaþjónustu, liggur á bilinu 75-85 prósent hjá okkur en hjá flestum sem maður ræðir við er hlutfallið ekki nema 25 prósent. Það er alveg ljóst að ef flugfélag væri að keyra á 25 prósenta nýtingarhlutfalli væri það ekki lengi í rekstri. Dæmið gengur ekki upp til lengdar,“ bendir Styrmir á.

Ingibjörg hjá Hótel Sögu segir að hótelið hafi ekki verið með margar bókanir frá Asíu þegar veiran fór að breiðast út og afbókanir hafi því verið fáar hingað til. Aftur á móti sé erfitt að átta sig á því hvernig staðan muni þróast. Þá nefnir hún að aukið framboð af hótelherbergjum og minni eftirspurn hafi valdið því að tekjur á hvert herbergi hafi lækkað um tæplega fjórðung á milli ára í janúar og febrúar.

„Það er ógnvænlegt að sjá svona mikla lækkun,“ segir Ingibjörg og bætir við að hart sé í ári hjá mörgum hótelum og ferðaþjónustufyrirtækjum.

„Það hjálpar svo ekki til að bankarnir halda að sér höndum. Þetta er sá tími þegar fyrirtæki í ferðaþjónustu hafa þurft að fá smá fyrirgreiðslu inn í sumarið og sérstaklega núna eftir erfitt rekstrarár. Síðan kemur kórónaveiran. Þetta er skrýtið ástand og óvíst hvernig fer,“ segir Ingibjörg.

Tapa fyrirframgreiðslum

Hrönn segir að árið 2019 hafi verið hagræðingarár hjá mörgum fyrirtækjum en hún tekur fram að hagræðing kosti sitt.

„Mörg fyrirtæki sem hafa ráðist í hagræðingar eru því í þröngri lausafjárstöðu og það getur skilið á milli feigs og ófeigs í ár, það er að segja, hverjir hafa aðgang að fjármagni til þess að geta fleytt sér í gegnum erfiða tíma. Hins vegar standa þau fyrirtæki betur að vígi og fókusinn er skýrari sem vissulega hjálpar,“ segir Hrönn.

Þá segir hún að ferðaþjónustu­fyrirtæki séu dæmigerð rekstrarfélög sem eigi erfitt með að fjármagna sig hjá lánastofnunum þar sem eignir til veðsetningar séu oft litlar sem engar.

Hrönn Greipsdóttir, framkvæmdastjóri Eldeyjar.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Þegar betur áraði fleyttu mörg fyrirtæki sér áfram á fyrirframgreiðslum. Fyrirframgreiðslur gerðu ferðaþjónustunni kleift að vera heilsársatvinnugrein. Þær eru ódýr fjármögnun sem hægt er að nota í þeim mánuðum þegar sjóðstreymið náði ekki að mæta gjöldum,“ segir Hrönn og bætir við að nú þegar óvissan vegna kórónaveirunnar er mikil séu ferðamenn ekki endilega tilbúnir að fullgreiða ferðir með löngum fyrirvara á meðan þeir vita ekki hvernig heimsmálin þróast.

„Bæði tapast fyrirframgreiðslur vegna minni eftirspurnar en áður og ekki síður vegna þess að fólk er ekki eins viljugt að borga fyrir þjónustu sem það er ekki visst um að geta nýtt sér. Með fækkun ferðamanna er einfaldlega ekki eins brýnt og áður að tryggja sér gistingu eða pláss í afþreyingu. Nú er bara vonandi að fjármögnunaraðilar hafi skilning á þessu ástandi, sem ég trúi að sé tímabundið, rétt eins og við höfum komist í gegnum aðrar dýfur í gegnum tíðina. Ástandið í dag undirstrikar enn og aftur hvað ferðaþjónustan er útsett fyrir ytri aðstæðum ekki síður en sjávarútvegurinn ef því er að skipta. Við erum að upplifa ákveðinn aflabrest í dag en ferðamenn eru ekki eins og síldin. Þeir koma aftur,“ segir Hrönn.

Fáir samrunar gengið í gegn

Í apríl 2018 fækkaði ferðamönnum milli ára í fyrsta skiptið í átta ár og um það leyti fór að bera á orðræðu um að atvinnugreinin þyrfti á samþjöppun að halda. Fyrirtæki þyrftu að sameinast til að ná stærðarhagkvæmni.

Styrmir Þór segir að lítið hafi gerst í þeim efnum nema hjá Arctic Adventures sem festi til að mynda kaup á hlutum framtakssjóðsins Icelandic Tourism Fund, sem er í rekstri Landsbréfa, í fimm ferðaþjónustufyrirtækjum í lok síðasta árs.

„Það hefur lítið sem ekkert gerst í sameiningum ferðaþjónustufyrirtækja nema hjá okkur. Frá því í haust hefur legið fyrir að ferðaþjónustan þurfi að hagræða í ljósi Lífskjarasamningsins og mikilla launahækkana sem honum fylgja. Það er fyrst og fremst gert með því að stækka einingarnar,“ segir Stymir.

Styrmir Þór Bragason, forstjóri Arctic Adventures.
Fréttablaðið/Anton Brink

„Stærsta hindrunin,“ bætir hann við, „er sú að margir fyrirtækjaeigendur eru að láta egóin sín þvælast fyrir sameiningum svo að hægt sé að búa til rekstrarhæf og burðug fyrirtæki í ferðaþjónustu. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er að taka sífelldum breytingum og þeir sem ekki bregðast við breyttum aðstæðum og þróast munu verða undir.“

Rútufyrirtækin Gray Line og Reykjavík Sightseeing tilkynntu Samkeppniseftirlitinu um fyrirhugaða sameiningu fyrirtækjanna um mitt síðasta ár. Rétt fyrir jól, ríflega hálfu ári síðar, fékkst samþykki frá Samkeppniseftirlitinu. Samruninn hefur enn ekki gengið í gegn.

Eftirlitið er steinn í götu

Hrönn segir að innan ferðaþjónustunnar sé mikið um viðræður og þreifingar um samruna en Samkeppniseftirlitið geti hins vegar verið þrándur í götu slíkra áforma.

„Í þessu sambandi er sérkennilegt hvernig Samkeppniseftirlitið hefur litið á ferðaþjónustu. Í mínum huga er ferðaþjónustan fyrst og fremst útflutningsgrein í alþjóðlegri samkeppni en þegar kemur að því að sameina fyrirtæki hefur Samkeppniseftirlitið verið býsna strangt í skilgreiningum sínum á markaðinum og jafnvel skilgreint samkeppni innan landsfjórðunga,“ segir Hrönn og bætir við að samrunum í greininni hafi fylgt íþyngjandi skilyrði sem fæli aðra fyrirtækjaeigendur frá því að ríða á vaðið.


„Samkeppniseftirlitið þarf að taka mið af því að Ísland er í samkeppni við önnur lönd svo að hér sé hægt að byggja upp stöndug fyrirtæki.“


„Tíminn sem eftirlitið tekur sér í skoðun sína nær líka engri átt. Fyrirtækjunum blæðir á meðan þau bíða vegna þess að í samrunaferli stöðvast margt í rekstrinum. Margir leggja ekki í samruna vegna þess að þeir búast fyrirfram við löngu ferli, og að niðurstaða Samkeppniseftirlitsins verði neikvæð og dragi jafnvel úr ætluðum samlegðaráhrifum,“ segir Hrönn. Þá spyr hún hvaða sjónarmið liggi á bak við íþyngjandi skilyrði eftirlitsins og langt samrunaferli.

„Er markmiðið að ferðamaðurinn John Smith greiði sem lægst verð fyrir afþreyingu á Íslandi? Samkeppniseftirlitið þarf að taka mið af því að Ísland er í samkeppni við önnur lönd svo að hér sé hægt að byggja upp stöndug fyrirtæki. Á sama tíma maka erlend bókunarfyrirtæki hér krókinn og stór hluti framlegðar ferðaþjónustunnar kemur aldrei til landsins. Það er sorglegt að vita til þess að fyrirtækin eru að greiða erlendum bókunarþjónustum allt upp í 25-30 prósenta þóknanir,“ segir Hrönn.

Segir að Lífskjarasamningurinn standist ekki skoðun

Launakostnaður ferðaþjónustufyrirtækja hefur aukist verulega á síðustu árum og hann mun fyrirsjáanlega aukast enn meira út gildistíma Lífskjarasamningsins sem nær til ársins 2022. Styrmir Þór segir að samningurinn standist enga skoðun enda hafi ekki verið neitt svigrúm fyrir launahækkanir í greininni.


„Ef stjórnvöld hefðu skilið hvernig ferðaþjónustan virkar hefðu þau aldrei gengið inn í Lífskjarasamninginn.“


„Það kallar á að fyrirtæki flytji störf út fyrir landsteinana eins og við höfum nú þegar gert. Íslensk ferðaþjónusta er í alþjóðlegri samkeppni og það segir sig sjálft að fyrirtæki í alþjóðlegri samkeppni geta ekki verið með öll störf í dýrasta landi í heimi,“ segir Styrmir Þór.

„Ef stjórnvöld hefðu skilið hvernig ferðaþjónustan virkar hefðu þau aldrei gengið inn í Lífskjarasamninginn,“ bætir hann við.

Í byrjun árs 2019 opnaði Arctic Adventures þjónustuver í Vilníus, höfuðborg Litháens, til viðbótar við þjónustuverið á Íslandi en einnig hugbúnaðarþróunardeild og markaðsdeild. Til að byrja með átti að flytja starfsemina út í litlum skrefum en þegar í ljós kom að afköstin í Litháen voru miklu meiri en hér heima var ákveðið að hraða flutningunum.

„Við erum búin að flytja þjónustuverið, markaðsdeildina og upplýsingatæknideildina til Litháens og einnig hluta af vörustjórnuninni. Við ákváðum að ráðast í þessar aðgerðir þegar verkalýðsfélögin stóðu í hótunum og fóru fram á launahækkanir sem voru ekki sjálfbærar,“ segir Styrmir Þór.

Sérðu fyrir þér að fleiri ferðaþjónustufyrirtæki grípi til þess að flytja hluta af starfseminni úr landi?

„Það kostar sitt og krefst stærðarhagkvæmni. Það getur verið að einhver fyrirtæki grípi til þess á endanum en þau þurfa að byrja á því að taka til heima hjá sér áður en þau eiga kost á því að flytja starfsemi út,“ segir Styrmir Þór.

Launakostnaður mun hærri en í Svíþjóð

Ingibjörg segir að Hótel Saga beri sig saman við systurhótelin úti í heimi og samanburðurinn varpi ljósi á skakka samkeppnisstöðu þegar kemur að launakostnaði.

„Ég fékk nýlega nokkrar kennitölur frá systurhótelunum til samanburðar. Okkur hefur tekist vel til varðandi ýmsan rekstrarkostnað en þegar kemur að launakostnaði sem hlutfalli af veltu munar hátt í 20 prósentustigum á okkur og systurhótelum í Svíþjóð. Þjónustufyrirtæki eru mannfrek atvinnugrein svo launahækkanir svíða. Ofan á þetta bætast svo sértækir skattar eins og gistináttaskattur, hátt tryggingagjald og brött hækkun á fasteignagjöldum,“ segir Ingibjörg.

Ingibjörg Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Radisson BLU Saga Hotel.
Fréttablaðið/Eyþór

Björn hjá Kynnisferðum segir að það sé orðið ansi dýrt að reka mannauðsfrekt fyrirtæki á Íslandi.

„Ísland er dýr áfangastaður sem má fyrst og fremst rekja til launakostnaðar og verðlags. Við erum enn að berjast við þessa keðjuverkun þar sem hærri laun krefjast hærra verðlags sem aftur krefst hærri launa og svo koll af kolli. Auk þess eru launatengdu gjöldin orðin ansi há þegar það sem launþegar fá í vasann er innan við 50 prósent af launakostnaði fyrirtækja. Stjórnvöld þurfa nauðsynlega að lækka skattaálögur til að auka samkeppnishæfni landsins,“ segir Björn.

„Lykillinn að árangri í þeim rekstri sem við erum í er að ná launahlutfallinu niður og mörg fyrirtæki hafa verið að glíma við að ná hlutfallinu niður undir 50 prósent. Það er ansi erfitt að borga helminginn af tekjunum í laun og eiga síðan alla aðra kostnaðarliði eftir,“ segir Björn. Spurður hvort mörg rútufyrirtæki eigi erfitt uppdráttar svarar hann játandi og það eigi sérstaklega við um fyrirtæki sem spruttu upp á árunum 2012 til 2015.

„Við náum að hagræða í krafti stærðarinnar, til dæmis með því að samnýta betur starfsfólk milli sviða og deilda innan fyrirtækisins, en mörg smærri fyrirtæki eiga ekki kost á því,“ segir Björn. Kynnisferðir hafa til að mynda náð að endurnýja stóran hluta af bílaflotanum og nýta hann betur.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Ljósmynd/Kynnisferðir

Gagnrýna framlög til Íslandsstofu

Stjórnvöld undirrituðu í síðustu viku nýjan þjónustusamning um starfsemi Íslandsstofu. Grunnurinn í fjármögnun Íslandsstofu er markaðsgjald sem fyrirtækin í landinu greiða auk framlags atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis sem samkvæmt samningnum verður 1.575 milljónir króna á árunum 2020-2024, eða 300 til 375 milljónir króna á ári.

„Íslandsstofa er nú betur í stakk búin en nokkru sinni áður til að leiða markvissa sókn á erlenda markaði,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra við tilefnið.

„Samningurinn felur í sér að unnið verður að því að efla samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs á erlendum mörkuðum, sem og laða erlenda ferðamenn og fjárfestingu til landsins, sem styrkir stoðir efnahagslífsins. Því er mikilvægt að hann skuli vera í höfn,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.

Samtök ferðaþjónustunnar gagnrýndu samninginn og sögðu mikil vonbrigði að framlög ríkisins til markaðssetningar fyrir íslenska ferðaþjónustu skuli lækka á næstu árum. Bentu samtökin á að til samanburðar jafngildi heildarframlögin til fimm ára aðeins eins og hálfs árs fjármagni sem samkeppnislöndin Noregur og Finnland verja hvort um sig til sams konar markaðssetningar miðað við hverjar 2 milljónir ferðamanna.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar
Fréttablaðið/Anton Brink

„Nú þegar íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir sífellt erfiðara rekstrarumhverfi, minnkandi eftirspurn og ýmsum neikvæðum ytri áhrifum er bráðnauðsynlegt að ríkið auki við fjárfestingu sína í markaðssetningu á verðmætum mörkuðum ferðaþjónustunnar. Slík fjárfesting er ein besta leiðin til að örva atvinnulíf og hagkerfi í niðursveiflu og myndi skila óumdeilanlegum árangri í formi gjaldeyristekna fyrir þjóðarbúið, skatttekna fyrir ríki og sveitarfélög, sterkari rekstri fyrirtækja og minna atvinnuleysi og þar með styðja við betri almenn lífsgæði fólks í landinu,“ sögðu samtökin á Facebook-síðu sinni en þau skora á stjórnvöld að bæta myndarlega við fjármagn til markaðssetningar fyrir ferðaþjónustu í fjármálaáætlun til næstu fimm ára.

„Við erum þekkt fyrir að það að bregðast of oft við eftir á og það vantar meiri snerpu í stjórnkerfið,“ segir Hrönn hjá Eldey. „Núna skiptir höfuðmáli að koma markaðssetningunni í gang og stuðla að auknu flugframboði. Þetta helst í hendur og þarf að vera samstillt átak. Framboð af flugi til landsins og sterkir áfangastaðir skipta öllu máli og eru mikilvægasti grunnur íslenskrar ferðaþjónustu.“

Hrönn bendir á að fækkun ferðamanna á síðasta ári hafi falið í sér tvöfalt högg vegna þess að Bandaríkjamönnum hafi fækkað mest.

„Þetta eru okkar verðmætustu kúnnar. Þeir kaupa afþreyingu, stoppa lengi og auglýsa okkur vel. Ég held að átak í því að ná Bandaríkjamönnum aftur til landsins myndi skila sér margfalt.“

Meiri háttar áhrif á flugfélög

Verð hlutabréfa í Icelandair hefur lækkað um 29 prósent í Kauphöllinni á ellefu dögum. Það stóð í 8,47 krónum á hlut 21. febrúar en hefur nú lækkað niður í 5,99 krónur þegar markaðurinn hafði lokað í gær.

Icelandair tilkynnti á sunnudaginn að eftirspurn eftir ferðalögum á ákveðin svæði í heiminum væri að dragast saman vegna aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar. Flugfélagið telur of snemmt að segja til um möguleg áhrif þessarar þróunar en hún skapi aukna óvissu þegar kemur að áætlaðri rekstrarniðurstöðu félagsins fyrir árið 2020.

Afkomuspá Icelandair Group fyrir árið 2020, sem félagið gaf út á markaðinn þann 6. febrúar síðastliðinn, er því ekki lengur í gildi og telja stjórnendur félagsins ekki mögulegt að gefa út áreiðanlega afkomuspá á þessum tímapunkti vegna óvissunnar.

British Airways tilkynnti á mánudaginn að félagið þyrfti að hætta við 200 flugferðir, meðal annars til Ítalíu, Þýskalands og Bandaríkjanna, til að „bregðast við minni eftirspurn í ljósi áframhaldandi vandamála vegna kórónaveirunnar“. Flugfélögin Ryanair, Lufthansa og EasyJet hafa brugðist við með álíka hætti.

IATA, alþjóðasamtök flugfélaga, telja að kórónaveiran hafið valdið „verulegum samdrætti í eftirspurn“. Samtökin hafa farið fram á við yfirvöld að reglugerðir, sem valda því að flugfélög missi úthlutaða afgreiðslutíma á flugvöllum ef tímarnir eru ekki 80 prósent nýttir, verði teknar úr gildi. Annars þurfi flugfélög að fljúga með tómar vélar til að halda afgreiðslutímunum.

Í umfjöllun Financial Times kemur fram að hjá einu flugfélagi hafi bókanir til Ítalíu fallið niður í núll og beiðnum um endurgreiðslur fari fjölgandi. Þá hafi heildarbókunum hjá öðru flugfélagi fækkað um 26 prósent miðað við sama tíma í fyrra. Á sumum leiðum sé staðan þannig að helmingur farþega mæti ekki í flugið.

Athugasemdir