Kristófer Oliversson, formaður FHG, Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, og framkvæmdastjóri CenterHotels, segir að næstu mánuðir verði þungir fyrir ferðaþjónustuna. „Það yrði dapurlegt ef menn myndu drukkna í fjörunni eftir að hafa svamlað yfir þetta haf,“ segir Kristófer og bætir við að hótelrekstur sé afar fjármagnsþung grein.

„Stóri vandinn hjá okkur er að það hefur safnast saman stór snjóhengja sem er enn óleyst og menn eru ekki farnir að ræða lausn á þeim vanda af neinu viti ennþá. Það er líka mikið áhyggjuefni að Íslandsbanki spáir aðeins ríflega milljón ferðamönnum meðan afkastageta greinarinnar er að minnsta kosti tvöfalt meiri. Stjórnvöld hafa sýnt greininni skilning og þurfa enn að koma með okkur í lið með að byggja upp geirann.“

Björn tekur í sama streng. „Að mínu mati hafa stjórnvöld staðið sig mjög vel varðandi ferðaþjónustufyrirtæki. Nú er vandi ferðaþjónustunnar orðinn að skuldavanda en var áður rekstrarvandi. Þó það séu bjartari tímar fram undan má ekki gleyma að næstu mánuðir verða erfiðir.“

Ásberg bætir við að hann hefði viljað sjá stjórnvöld ganga lengra í afléttingum. „Persónulega myndi ég vilja að við myndum fylgja fordæmi Dana og aflétta öllum sóttvarnaaðgerðum strax. Ég er þó ekki sannfærður um að það að aflétta of hratt sé gott þegar kemur að ferðaþjónustunni. Það væru mjög slæm skilaboð ef það yrði aflétt hratt en síðan hert aftur.“

Hann segir jafnframt að stjórnvöld hafi almennt staðið sig heilt yfir vel við að koma til móts við fyrirtæki í ferðaþjónustunni. „Sú staðreynd að flest fyrirtæki í greininni eru enn til staðar er til marks um það að stjórnvöld hafi heilt yfir staðið sig mjög vel. En næstu þrír mánuðir verða mjög erfiðir fyrir marga þar sem lausafjárstaðan er lítil, tekjur undir áætlun og skuldir halda áfram að vaxa.“

Ásberg Jónsson, forstjóri Travel Connect, segir að heilt yfir líti sumarið mjög vel út hjá félögum Travel Connect.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Við eru að njóta góðs af því að ferðmenn eru í dag frekar að leita í að bóka hjá ferðaskrifstofum heldur en að bóka beint og ferðamenn eru almennt að ferðast lengur en fyrir Covid. Bókunarstaðan er þó misjöfn eftir þjónustu og mörkuðum. Ameríka og Evrópa eru komnar aftur að stað en markaðir lengra frá eru ekki komir aftur af stað.“

Kristófer Oliversson, formaður FHG, Fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, og framkvæmdastjóri CenterHotels.

Kristófer bætir við að hann vilji ekki sjá skuggahagkerfið vaxa upp aftur.

„Við sáum það á sínum tíma að Airbnb var orðið miklu umsvifameira í herbergjafjölda heldur en hótelrekstur í Reykjavík. Það er mikilvægt að stjórnvöld taki af skarið og stuðli að heilbrigðri uppbyggingu atvinnugreinarinnar.“

Spurður hvort hann sé bjartsýnn á framhaldið segir hann svo vera en þó megi ekki gleyma að næstu mánuðir verði erfiðir. „Miðað við þessar farþegaspár þá vantar mikið upp á að staðan verði sú sama og hún var 2018-2019. En bókunarstaða okkar fyrir sumarið er þokkaleg en það er oft þannig að hótelgeirinn dregur vagninn með því að bjóða góð verð til að laða gesti til landsins. Spurningin er hvort eftirspurnin verði næg til að ná eðlilegri verðlagningu.“

Ásberg kveðst einnig vera bjartsýnn fyrir komandi tímum.

„Á síðustu dögum og vikum höfum við fundið fyrir aukinni bjartsýni. Það hægðist mikið á bókunum í desember og janúar en nú erum við að sjá að bókanir eru byrjaðar að streyma aftur inn. Það þarf þó að hafa í hugsa að íslensk ferðaþjónusta er byggð fyrir meira en 2 milljónir ferðamanna og ef spá Íslandsbanka rætist verður þetta heilt yfir þungt ár og greinin mun þurfa að fara í gegnum erfiða aðlögun fyrir lok árs.“

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.

Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða, segir að hann búist við því að það komi góður ferðamannastraumur til landsins næsta sumar. „Við höfum séð það í Covid að bókunarfyrirvari hefur verið að styttast mikið og þar af leiðandi er mikið af vörunum sem við erum að selja með skamman bókunartíma,“ segir Björn og bætir við að hann skynji töluverða bjartsýni innan ferðageirans. „Við höfum verið í samskiptum við ferðaskrifstofur sem eru að skipuleggja ferðir til Íslands og heyrum almennt töluverða bjartsýni af þeirra hálfu.“