Ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur fá ekki viðbótarlán, sem er eitt af úrræðum ríkisins til að aðstoða fyrirtæki í vanda vegna tekjufalls sem rekja má til COVID-19. Reglurnar kveða á um að launakostnaður verði að vera að lágmarki 25 prósent af heildarrekstrarkostnaði árið 2019. Í ljósi þess að umrædd fyrirtæki miðla ferðum, bílaleigubílum og hótelgistingu, er litið á milligönguna sem tekjur ferðaskrifstofa og því verður hlutfallslegur launakostnaður of lágur til að geta nýtt úrræðið. Þetta staðfestir Hlynur Sigurðsson, endurskoðandi hjá KPMG.

Viðbótarlán til einstaks fyrirtækis geta að hámarki numið tvöföldum árslaunakostnaði árið 2019. Lán sem nýtur 70 prósenta ríkisábyrgðar getur hæst numið 1,2 milljörðum króna.

Eigandi ferðaskrifstofu, sem vildi ekki láta nafns síns getið í fjölmiðlum, segir að banki væri fús til að lána fyrirtækinu umrætt viðbótarlán en lánveitingin strandaði á því að bankinn fengi hvorki skýr svör frá Seðlabankanum né fjármálaráðuneytinu um hvort lánveitingin standist reglur. Ríkissjóður ábyrgist allt að 70 prósent lánsins.

20 prósent af sölunni í vasa ferðaskrifstofunnar

Eigandi ferðaskrifstofunnar segir að fyrirtækið fái um 20 prósent af sölunni í sinn vasa en ekki alla fjárhæðina, eins og ætla mætti af afstöðu hins opinbera. Miðað við skilgreiningu ríkisins hafi launakostnaður verið tæplega tíu prósent í fyrra, en ef litið sé til raunverulegra tekna fyrirtækisins hafi hlutfallið verið rúmlega 50 prósent.

Hlynur segir að það virðist vera að tiltekinn atvinnurekstur geti ekki nýtt sér úrræðið vegna þess hvernig viðskiptamódeli hans er háttað. „Það væri æskilegt að regluverk og skilyrði gagnvart þessum aðilum til að nýta úrræðið væri skýrara en nú er,“ segir hann.

Í ársreikningi ferðaskrifstofu sem sótt hafi um viðbótarlán komi, að sögn Hlyns, skýrt fram hverjar tekjur voru af ferðum og hver kostnaður vegna þeirra var. Úr þeim lið væru reiknaðar nettó tekjur fyrirtækisins af ferðunum og því næst var kostnaður fyrirtækisins útlistaður. Það sé því auðvelt að rýna í tekjur og gjöld fyrirtækisins.

Fjöldi í sömu sporum

Hlynur telur að býsna mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu lendi í vanda við að nýta úrræðið, því mikið sé um verktöku í tengslum við ferðir. „Um leið og tekjur þurrkast upp hjá ferðaskrifstofum og ferðaskipuleggjendum hverfur sá kostnaður líka,“ segir hann.