Hagsjá Landsbankans um ferðaþjónustu fjallar um þetta í dag.

Bandaríkjamenn þriðjungur ferðamanna

Bandaríkjamenn voru flestir erlendra ferðamanna í júlí eða ríflega þriðjungur. Þetta hlutfall er nokkuð svipað því sem var fyrir faraldur og staðfesting þess að ferðaþjónustan sé að ná vopnum sínum á ný. Bandarískir ferðamenn voru tæplega 79 þúsund í júlí, eða 20 prósent fleiri en í sama mánuði 2019, og var þetta í fyrsta sinn sem Bandaríkjamenn, líkt og ferðamenn alls, voru fleiri en í sama mánuði fyrir faraldur. Sé litið til þeirra 17 þjóða sem hefð hefur verið fyrir að telja sérstaklega inn í landið voru 8 tilfelli þar sem ferðamenn viðkomandi þjóðar voru fleiri en í sama mánuði árið 2019. Ferðamönnum frá Danmörku hefur fjölgað mest en 76 prósent fleiri danskir ferðamenn voru hér á landi í júlí en í sama mánuði 2019. Næstmesta fjölgunin er í ferðamönnum frá Ítalíu, eða 59 prósent, og þriðja mesta fjölgunin er hjá hollenskum ferðamönnum, 24 prósent.

Asíuþjóðirnar tregari

Ferðamönnum frá Asíu fækkaði mikið eftir faraldur eins og ferðamönnum frá öðrum heimsálfum. Þeim hefur hins vegar ekki fjölgað jafn mikið hér á landi að undanförnu eins og ferðamönnum frá öðrum heimsálfum. Þannig var fjöldi ferðamanna frá Japan í júlí einungis 39% af fjöldanum 2019 og fjöldinn var einungis 13% frá Kína. Hluti af ástæðunni fyrir þessum litla fjölda frá Kína er hár fjölda Covid-19 smita framan af ári á sama tíma og flest Evrópuríki og ríki Norður-Ameríku höfðu náð góðum tökum á vandamálinu.

Mikið vatn runnið til sjávar síðasta árið

Mikið vatn hefur runnið til sjávar í íslenskri ferðaþjónustu síðasta árið eða svo. Svartnættið í ferðaþjónustunni var hvað mest í mars á síðasta ári en þá var fjöldi erlendra ferðamanna einungis 2 prósent af fjöldanum í sama mánuði 2019. Með hækkandi sól fór þessi tala vaxandi eftir því sem bólusetningum vatt fram. Í júní í fyrra var hlutfallið komið upp í 20 prósent og 48 prósent í júlí, það hélt áfram að leita upp með haustinu og náði tímabundnu hámarki í 63 prósent í október. Svo kom örlítið bakslag eftir að ómíkron-afbrigðið komst á flug, hlutfallið leitaði aftur niður á við og varð lægst 49% í janúar. Upp frá því var farið að slaka verulega á ferðatakmörkunum og tók hlutfallið stökk í apríl og fór upp í 85 prósent samanborið við 60 prósent í mars. Síðan hefur það haldið áfram að hnikast upp á við og var komið upp fyrir 100 prósent nú í júlí.

Ferðamenn frá Vestur-Evrópuþjóðum fleiri á öðrum fjórðungi en 2019

Þetta stökk hlutfallsins í apríl þýðir að hlutfall ferðamanna á öðrum fjórðungi var mun hærra en á fyrsta fjórðungi borið saman við sömu tímabil 2019. Þrátt fyrir að heildarfjöldi ferðamanna hafi ekki náð að verða meiri en fyrir faraldur fyrr en nú í júlí voru ferðamenn frá Vestur-Evrópu þegar orðnir fleiri á öðrum fjórðungi en á sama tímabili 2019. Þeir aðilar í ferðaþjónustu sem þjónustuðu þá fyrir faraldur hafa því líklegast þegar fundið fyrir meiri tekjum nú á öðrum fjórðungi en á sama tímabili 2019. Ferðamenn frá Vestur-Evrópu voru 14 prósent fleiri nú á öðrum fjórðungi en 2019 og var þetta eini hópur landa þar sem ferðamönnum hafði þegar fjölgað miðað við fyrir faraldur. Af öllum löndunum var fjölgun Ítala mest nú á öðrum fjórðungi, eða 54 prósent. Næstmest var fjölgun Hollendinga, eða 44 prósent, og þriðja mest var fjölgun Íra, 35 prósent. Fjöldi ferðamanna frá Austur-Evrópu var nú á öðrum fjórðungi enn 14 prósent minni en 2019 og 18 prósent minni frá Bandaríkjunum. Norðurlandaþjóðirnar voru enn 8 prósent færri. Sé litið til samdráttar voru Asíuþjóðirnar mest áberandi en fjöldi ferðamanna þaðan var enn einungis 32 prósent af fjöldanum 2019.