Ferðamannaverslunum í miðbæ Reykjavíkur, sem ætla má að hafi verið með á þriðja hundrað starfsmenn þegar hæst stóð og velt samtals milljörðum króna, hefur flestum verið skellt í lás eftir að tilkynnt var um hertar aðgerðir á landamærunum um miðjan ágúst.

„Allir sem reiða sig á sölu til erlendra ferðamanna eru í taprekstri eins og staðan er í dag. Í raun tilgangslaust að hafa opið. Betra er að bíða og sjá hvenær fleiri ferðamenn koma til landsins,“ segir Jóhann Guðlaugsson, eigandi Geysis, sem rekur ellefu verslanir í miðbænum.

Minnst 43 verslanir í miðbæ Reykjavíkur byggja afkomu sína að langmestu leyti á ferðamönnum. Þetta eru verslanir sem selja íslenskar vörur svo sem minjagripi, ullarvörur eða annan útivistarfatnað. Þar af eru lundabúðirnar, eins og þær eru oft kallaðar, 25 talsins.

Samantekt Markaðarins leiðir í ljós að 30 verslunum hafi verið lokað á síðustu vikum og mánuðum. Ef lundabúðirnar eru teknar sérstaklega fyrir hefur 23 verið lokað og 11 hafa verið tæmdar. Í sumum verslunum hafði pappakössum verið komið fyrir og verða þær því tæmdar á næstunni.

tafla 2.jpg

Einn viðmælandi Markaðarins, sem rekur nokkrar ferðamannaverslanir í miðbænum, segir að þegar landinu hafi verið lokað hafi tekjurnar verið komnar upp í um 40 prósent af því sem þær voru í fyrra og áætlanir hafi gert ráð fyrir að afkoman yrði nokkurn veginn við núllið. „Síðan fær greinin rothögg og nú erum við að horfa fram á tugi milljóna í mínus,“ bætir hann við.

Jóhann hjá Geysi segist hafa verið hóflega bjartsýnn í sumar. „Júlí og ágúst lofuðu góðu, en eftir að landamærunum var svo gott sem lokað hefur verið mjög erfitt að sigla í gegnum þetta. Maður er með skuldbindingar gagnvart starfsfólki og öðrum en veit ekki nema með kannski litlum fyrirvara hvaða aðgerða verður gripið til.“

Tómar lundabúðir 07.jpg

Átta fyrirtæki reka verslanirnar sem samantekt Markaðarins náði yfir. Stærst er Drífa ehf., eigandi Icewear-vörulínunnar, sem rekur fimm verslanir í miðbænum, auk verslunar á Vík og fleiri stöðum á landsbyggðinni og velti rúmlega 3 milljörðum króna árið 2019. Drífa hafði einungis lokað einni verslun í miðbænum þegar samantektin var gerð í byrjun október.

Geysir, næststærsta keðjan, rekur sem fyrr segir ellefu verslanir í miðbænum og hefur lokað sjö af þeim. Dótturfélagið sem heldur utan þessar verslanir velti 1,6 milljörðum króna á árinu 2018. Innan keðjunnar eru fjórar fataverslanir, þrjár undir vörumerkinu Geysir og Fjällräven, sex lundabúðir og ein jólavörubúð. Undir keðjunni er síðan ferðamannaverslun við Geysi í Haukadal. Þá rekur Sjóklæðagerðin tvær 66°Norður verslanir í miðbænum og hefur annarri verið lokað.

Tómar lundabúðir 09.jpg

Geysir, Icewear og Sjóklæðagerðin skera sig úr í hópnum að því leyti að hlutdeild Íslendinga í heildarveltu er aðeins meiri en hjá minni keðjum. Þær hafa þurft að loka nær öllum verslunum sínum. Má þar nefna Bolasmiðjuna, sem velti 767 milljónum árið 2019 og var með tíu verslanir í miðbænum, sem flestar eru lokaðar. Einnig má nefna Nordic Store, sem rak fimm verslanir í miðbænum sem allar eru lokaðar, Pennann, sem rak fjórar og Rammagerðina sem rak þrjár.

Eftir því sem Markaðurinn kemst næst má áætla 5-6 starfsmenn á hverja ferðamannaverslun. Þannig má gróflega áætla að töpuð störf, miðað við fjölda lokaðra verslana, séu hátt í 200 talsins. „Við hefðum ekki sagt upp þessum 30 sem misstu vinnuna ef landinu hefði ekki verið skellt í lás,“ segir viðmælandi Markaðarins, sem þurfti að segja upp öllum nema nokkrum lykilstarfsmönnum.

Tómar lundabúðir 03.jpg

Margir verslunareigendur ganga út frá því að landamærin verði ekki opnuð aftur fyrr en í vor. Ef sú spá gengur eftir missa verslanirnar út desember og janúar sem hafa áður verið veltumiklir mánuðir.

„Jólaverslun verður alltaf mikil í miðbænum en það verður sjálfsagt ekki mikið verslað í þeim verslunum sem byggja afkomu sína að langmestu leyti á ferðamönnum,“ segir Þröstur Þórhallsson, fasteignasali hjá Mikluborg, sem sérhæfir sig í atvinnuhúsnæði. Ástandið, eins og það er í dag, geti þó breyst á skömmum tíma ef samfélagið nær utan um bylgjuna sem ríður yfir.

Offramboð fyrir COVID

Leiða má líkur að því að grisjun á markaðinum hafi verið óhjákvæmileg, jafnvel þó að kóróna­veiran hefði ekki komið til sögunnar. Sem dæmi má nefna að fimm ferðamannaverslanir voru opnaðar í miðbænum á árinu 2019 þrátt fyrir að fall WOW air hefði valdið töluverðum samdrætti í komu ferðamanna til landsins.

„Á næsta ári má búast við mikilli uppstokkun á þessum markaði, þar sem mörgum verslunum verður lokað og sum fyrirtæki fara í þrot,“ nefnir einn viðmælandi.