Heildarkostnaður ríkisins fyrir Ferðagjafar-appið verður að hámarki um 15 milljónir króna, sem er rétt undir útboðsmörkum. Appið er hannað af fyrirtækinu YAY. Heildarverðið fyrir hönnun og þróun appsins er 4 milljónir króna. Þá mun YAY sinna ýmsum rekstri vegna lausnarinnar og verður heildarþóknun fyrir það á bilinu 8 til 11 milljónir króna til loka verkefnisins. Hönnun og þróun appsins er á lokastigi.

Fram kemur í skriflegu svari atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins við fyrirspurn Fréttablaðsins að lausn YAY hafi verið metin hæfust af fjölda lausna sem upphaflega voru skoðaðar. Frumskoðun hafi bent til að kaup á stafrænni lausn vegna gjafabréfanna væri undir útboðsmörkum, sem eru 15,5 milljónir króna. Að því hafi menn komist eftir verðfyrirspurnir meðal þeirra fyrirtækja sem talið var að gætu útvegað tæknilega lausn sem þegar væri til staðar. Markmiðið hafi verið að halda kostnaði í lágmarki og koma þessu hratt af stað, í ljósi alvarlegrar stöðu ferðaþjónustufyrirtækja hér landi.

Fréttablaðið hefur heimildir fyrir því að verð fyrir appið þyki nokkuð hátt, en því vísar Ari Þorgeir Steinarsson, framkvæmdastjóri YAY á bug. „Við erum engan veginn sammála þeirri fullyrðingu að þóknunin sé í hærri lagi,“ segir Ari.

Frumvarpið um ferðagjöfina var samþykkt á Alþingi í gær. Munu allir yfir 18 ára aldri fá 5.000 króna Ferðagjöf, er það hugsað til að nota á ferðalagi um Ísland í sum­ar. Ekki liggur fyrir hvenær gjöfin verður aðgengileg, en það ætti þó að verða á næstu dögum.