Forstjóri BL segir Íslendinga skynsamari í bílakaupum en áður og að eftirspurnin eftir rafmagnsbílum hafi aukist. Bílaleigubílar eru flestallir keyrðir á bensíni og dísilolíu þar sem ferðamenn kjósa þá fram yfir rafmagnsbíla.

Erna Gísladóttir, forstjóri BL, segir að Íslendingar ættu ekki að tala sig niður hvað varðar orkuskipti í bílum, enda eru Íslendingar í öðru sæti á heimsvísu þegar kemur að hlutfalli nýseldra rafmagnsbíla. . Norðmenn eru í fyrsta sæti en Erna minnir á að Norðmenn hafa niðurgreitt rafbíla í 22 ár.

Hún segir hins vegar að innviðir fyrir rafmagnsbíla eigi enn langt í land og að ferðamenn kjósi frekar bensín- og dísilbíla fram yfir rafmagnsbíla.

Töluverðar sveiflur hafa verið á bílamarkaðnum undanfarin ár eftir heimsfaraldur. Erna segir að BL hafi búist við því fyrir rúmu ári að bílasala myndi fara aftur í eðlilegt horf en stríðið í Úkraínu hafi skyndilega sett strik í reikninginn.

Mikið af þeim íhlutum sem fara í bíla kom frá Úkraínu og þá sérstaklega rafmagnsíhlutir eins og rafkerfi. Þar að auki hafi úkraínsk framleiðsla séð fyrir miklu af plastíhlutum, útvarpstækjum og stýrishiturum og þegar stríðið hófst hafði það keðjuverkandi áhrif á heildarframleiðslu.

„Það sem hafði mest áhrif þarna í byrjun var aðallega það að stríðið tafði bílaframleiðsluna, en það er búið að lagast mjög mikið síðan þá. Kína er til dæmis mjög stór markaður þegar kemur að framleiðslu á íhlutum í bíla og þeir eru náttúrulega búnir að opna allt hjá sér. Svo tekur bara alltaf smá tíma að breyta til að taka upp framleiðsluna í öðrum löndum,“ segir Erna.

Bílakaupunum frestað fyrst

Hún segir bílasölur vera ákveðinn leiðarvísi í íslensku efnahagslífi þar sem bílakaup eru yfirleitt það sem fólk frestar fyrst.

„Þú ákveður kannski að fara í sumarfrí, en kaupir þá frekar bílinn á næsta ári.“

Verðbólga og breytingar á lántöku hafi einnig haft áhrif á sölu en Erna bendir á að margar breytingar hafi orðið á kaupvenjum Íslendinga á undanförnum árum. Hún segir fleiri nú til dags eiga mun meira í sínum gamla bíl sem auðveldar þá útborgun á þeim næsta. Þar að auki er fólk mun duglegra að reikna út rekstrarkostnaðinn á mismunandi bílum og tekur það inn í myndina þegar það tekur svo bílalán.

Erna segir að framboð á rafmagnsbílum hafi einnig aukist til muna og hefur BL til að mynda fengið inn mikið af bílum sem framleiddir eru í Kína. Hún segir söluna á rafbílum eins og Hongqi E-HS9 hafa gengið vel og þrátt fyrir hátt verð sé sá bíll allt að helmingi ódýrari en aðrir bílar í svipuðum gæðaflokki.

„Framleiðslan í Kína á rafmagnsbílum er mjög mikil. Markaðurinn þar er svo stór og eftirspurnin er svo mikil út af mengun og öllu öðru. Þróunin á öllum BMW-rafmagnsbílum fer meðal annars öll fram í Kína. Allt þetta hefur orðið til þess að þeir eru mjög framarlega í framleiðslu á rafmagnsbílum.“

Erna segir 40 til 50 prósent af öllum nýskráðum bílum vera bílaleigubíla og hafa þeir mikið að segja um framboð á íslenskum bílamarkaði.

„Það má ekki gleyma því að bílaleigubílar eru enn flestallir keyrðir á bensíni og dísil vegna þess að innviðirnir eru ekki komnir á þann stað sem við viljum og margir ferðamenn kunna heldur ekki enn á rafmagnsbíla. Fyrir utan þá Bandaríkjamenn sem keyra Teslur, þá kemur stór hluti þeirra ferðamanna frá löndum sem notast ekki mikið við rafmagnsbíla.“