Umfjöllunin sem Advania fékk í erlendum miðlum eftir að fyrirtækið dró regnbogafána að húni í tengslum við heimsókn Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna, var um 100 milljóna króna virði. Þetta kemur fram í umfjöllun Markaðarins um að íslensk fyrirtæki muni í auknum mæli þurfa að taka afstöðu til samfélagsmála.

Fréttir af regnbogafánum Advania fóru eins og eldur í sinu í fjölmiðlum, bæði innlendum og erlendum. Samantekt á erlendri umfjöllun um þetta mál var unnin af alþjóðlega fréttakerfinu Cision sem mældi hve víða ákveðin efnisorð (Mike Pence, Advania, LGBT o.fl.) birtust í erlendum fjölmiðlum dagana á eftir heimsókn Mikes Pence til Íslands.

Samkvæmt greiningu Cision náðu fréttir og bloggfærslur um málið til allt að 439 milljón lesenda og þeim var deilt um 75 þúsund sinnum á samfélagsmiðlum. Ætlun stjórnenda Advania var þó aldrei sú að skapa fjölmiðlafár að sögn Ægis Más Þórissonar forstjóra.

„Viðbrögðin voru stjarnfræðileg. Við drógum fánana að húni og höfðum ekki í hyggju að láta nokkurn vita sérstaklega af því. Fólk í kringum okkur tók strax eftir þessu og fór að pósta myndum á samfélagsmiðla. Það liðu ekki nema fimm eða sex mínútur þangað til við fengum fyrsta símtalið frá fjölmiðlum,“ segir Ægir Már.

Að auki notar Cision aðferð við að meta virði tiltekinnar umfjöllunar eða, ef umfjöllunin er neikvæð, hve miklum skaða umfjöllunin hefur valdið. Niðurstaðan var sú að Advania hefði þurft að verja um 825 þúsund Bandaríkjadölum, jafnvirði um 100 milljóna króna, í stafræna markaðssetningu til að ná sambærilegri dreifingu.