Í stórskemmtilegu spjalli þeirra Jóns G. Haukssonar og Hermanns Guðmundssonar, forstjóra Kemi, í þættinum Stjórnandinn með Jóni G. ræða þeir brúðkaup Hermanns og konu hans Svövu Gunnarsdóttur í lok október sl.

Nokkra athygli vakti þegar þau fengu sér pylsur á Bæjarins bestu í miðbænum á leiðinni heim úr veislunni og birtu mynd af sér á Facebook fyrir framan pylsuvagninn.

Eins og gengur höfðu þau haft í nógu að snúast í brúðkaupsveislunni og gáfu sér lítinn tíma til að bragða á veislumatnum allt kvöldið. Að lokinni veislu var hins vegar nánast ekkert eftir af matnum og ákváðu þau að fá sér bita þegar heim væri komið.

Á leið sinni úr veislunni að nærliggjandi bílageymslu gengu þau fram hjá Bæjarins bestu uppáklædd í brúðargallanum. Það var engin röð og skelltu þau sér upp að lúgunni og pöntuðu.

„Fljótlega myndaðist góð röð fyrir aftan okkur þegar stór hópur útlendinga mætti til að fá sér pylsur. En úr þessu varð mikið skemmtiatriði. Þetta var Halloween-helgina og við vorum spurð að því hvort þetta væri eitthvert Holloween-brúðkaup eða raunverulegt. Þegar það lá fyrir urðu fagnaðarlæti á svæðinu og allir tóku sig til og klöppuðu fyrir okkur,“ segir Hermann.

Nánar um þetta skemmtilega atvik í þættinum annað kvöld.

Stjórnandinn með Jóni G. er á dagskrá Hringbrautar kl. 20 öll mánudagskvöld.