Eik fasteignafélag hefur ákveðið að fella úr gildi afkomuspá sína fyrir árið vegna þeirrar óvissu sem ríkir í efnahagsmálum vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Fasteignafélagið hyggst auk þess ljúka endurkaupaáætlun sinni sem hrint var í framkvæmd fyrr í mánuðinum.

Þetta kemur fram í tilkynningu sem Eik sendi Kauphöllinni síðdegis í gær.

Hvað afkomuspá fasteignafélagsins varðar þá segir í tilkynningu félagsins að forsendur hennar breytist dag frá degi vegna óvissunnar um efnahagsáhrif kórónaveirunnar og því sé það mat félagsins að forsendur hennar séu brostnar.

„Árið fór vel af stað og var rekstur félagsins fyrstu tvo mánuði ársins lítillega yfir áætlunum. Útlit er fyrir að mars verði nokkuð undir væntingum enda hafa tekjur Hótel 1919 dregist mikið saman. Leitast hefur verið við að draga úr kostnaði hótelsins og kann því að verða lokað tímabundið,“ segir í tilkynningu Eikar.

Er þar jafnframt tekið fram að rekstrarkostnaður hótelsins á meðan möguleg lokun varir sé áætlaður um tíu til tólf milljónir króna á mánuði.

„Fjárhagsstaða félagsins, laust handbært fé og samsetning eignasafns þess gerir félagið vel í stakk búið til að takast á við tímabundnar sveiflur. Félagið mun uppfæra horfur ársins þegar stjórnendur öðlast skýrari sýn á reksturinn. Þá er félagið með góða dreifingu leigutekna en yfir 470 kennitölur greiddu leigu til félagsins á árinu 2019,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Stjórn Eikar hefur einnig ákveðið að fresta um óákveðinn tíma aðalfundi félagsins sem átti að fara fram 2. apríl. Verður boðað til fundarins að nýju með auglýsingu síðar.

Auk þess hefur stjórnin tekið ákvörðun um að ljúka endurkaupaáætlun sem sem hrint var í framkvæmd 12. mars síðastliðinn. Áætlað var að kaupa allt að 75 milljónir hluta og að hámark endurkaupanna yrði 500 milljónir króna.

Samtals voru keyptir 7,5 milljónir hluta á grundvelli endurkaupáætlunarinnar sem samsvarar tíu prósentum af þeim eigin hlutum sem að hámarki verða keyptir samkvæmt henni. Kaupverð hinna keyptu hluta nam samtals ríflega 46,2 milljónum króna.