„Meginverkefni okkar á að vera að horfa gagnrýnum augum á þær reglur sem hafa verið settar og fækka þeim eins og mögulegt er. Slík einföldun regluverks stuðlar að aukinni verðmætasköpun, meiri skilvirkni, meiri samkeppni, lægra verði og þar með betri lífskjörum. Hér höfum við svo sannarlega verk að vinna,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, á blaðamannafundi í ráðuneytinu í morgun. Verkefnið er unnið í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem kveðið er á um að gert verði átak í einföldun regluverks í þágu atvinnulífs og almennings og lögð áhersla á skilvirka og réttláta stjórnsýslu.  

„Við þurfum að grisja skóginn,“ segir Kristján Þór. „Við munum fella á brott 1.090 reglugerðir.“

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem fela í sér að skráningum verslana verði hætt, iðnaðarleyfi og leyfi til sölu notaðra ökutækja verði lögð af, ráðherra fái heimild til að framselja vald til að veita undanþágur á grundvelli laga um samvinnufélög, auk annarra atriða sem horfa til einföldunar. Loks er lagt til í frumvarpinu brottfall 16 úreltra laga sem ekki hafa sérstakt gildi lengur.

Líkt og greint er frá í Fréttablaðinu í dag verður frumvarp ráðherra um breytta samkeppnislöggjöf lagt fram í dag, þessi verkefni eru þó ótengd því frumvarpi. Í því frumvarpi er heimild Samkeppniseftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla afnumin. Einnig yrði fellt úr lögum það hlutverk eftirlitsins að veita undanþágu fyrir samstarfi fyrirtækja, þess í stað munu þau sjálf meta hvort skilyrði laga sé fyrir hendi.

Í síðustu viku var lagður fram svokallaður bandormur, sem snýr að því að fella á brott ýmsa lagabálka til að einfalda regluverkið. Boða ráðherrarnir stærri bandorma í vetur.

Einnig er lögð áhersla á faggildingu til að hægt sé að útvista starfsemi sem nú er á forræði ríkisins til einkaaðila.

Kristján Þór stillti svo upp reglugerðunum 1.090 fyrir blaðamenn og felldi þær úr gildi.

Ráðherrarnir slógu þá á létta strengi.

„Ég er smá svekkt að þú skulir ekki kveikja í þessu samt,“ sagði Þórdís Kolbrún.

„Þetta er ekki skemmtilesning, þetta er ekki reyfari,“ sagði Kristján Þór, leit hann svo á Þórdísi Kolbrúnu og sagði. „Komdu með eldspýturnar.“