Stjórn eignarhaldsfélags gamla Landsbankans (LBI) og fyrrverandi meðlimir slitastjórnar bankans hafa komist að samkomulagi um að slíta rúmlega 14 milljóna evra skaðleysissjóði, jafnvirði um 2,3 milljörðum íslenskra króna, en hann var settur á fót við nauðasamninga LBI í árslok 2015. Var sjóðnum ætlað að tryggja starfsfólki slitastjórnar, ásamt tilteknum lykilstarfsmönnum og ráðgjöfum LBI, skaðleysi til allt að tíu ára gagnvart mögulegum málsóknum vegna starfa þeirra á meðan slitameðferð bankans stóð.

Samkomulagið felur meðal annars í sér að greiðslu upp á samanlagt 2,58 milljónir evra, jafnvirði um 420 milljónir króna, til slitastjórnar og fyrrverandi starfsmanna LBI gegn því að fallast á að skaðleysissjóðurinn verði lagður niður. Greiðslurnar ná til Herdísar Hallmarsdóttur, fyrrverandi formanns slitastjórnar LBI, Kristins Bjarnasonar, sem sat einnig í slitastjórn, Péturs Arnar Sverrissonar, lögmanns og ráðgjafa LBI, og Guðmundar Óla Björgvinssonar, lögmanns og ráðgjafa LBI, og dánarbús Halldórs Backmans, en hann var um árabil í slitastjórn bankans en lést árið 2017. Engar greiðslur verða hins vegar inntar af hendi til Ársæls Hafsteinssonar, framkvæmdastjóra LBI um árabil.

Samhliða því að skaðleysissjóðnum verður slitið mun stjórn LBI kaupa nýja og mun takmarkaðri tryggingu fyrir umrædda fyrrverandi starfsmenn slitabúsins gegn mögulegum málssóknum.

Það sem út af stendur í skaðleysissjóðnum – samtals um 11,55 milljónir evra – verður greitt út til skuldabréfaeigenda LBI. Í lok júní á þessu ári numu heildareignir slitabúsins um 114 milljónum evra. Stærstu skuldabréfaeigendur LBI eru erlendu vogunarsjóðirnir og fjármálafyrirtækin Anchorage Capital, Deutsche Bank, Taconic Capital, Goldman Sachs og Davidson Kempner.

Sambærilegir skaðleysissjóðir voru einnig settir upp í slitabúum hinna föllnu bankanna við gerð nauðasamnings Glitnis og Kaupþings. Stjórn eignarhaldsfélags Glitnis náði samkomulagi við Steinunni Guðbjartsdóttur og Pál Eiríksson, sem höfðu skipað slitastjórn bankans, um að slíta um átta milljarða skaðleyssisjóði félagsins gegn því að inna af hendi tvær greiðslur til þeirra að andvirði samtals um 800 milljóna króna á árunum 2016 og 2017