Raf­orku­fyrir­tækið Bio­kraft ehf., sem séð hefur um fram­leiðslu raf­magns í gegnum vind­myllur í Þykkva­bæ í Rang­ár­þingi ytra, hefur verið tekið til gjald­þrota­skipta. Þetta kemur fram í Lög­birtinga­blaðinu í dag þar sem skorað er á þá sem telja sig eiga heimtingu á slíku að lýsa kröfum á hendur búinu til skipta­stjóra. 

Bio­kraft gang­setti tvær vind­myllur í Þykkva­bæ í júlí 2014 og voru þær skömmu síðar tengdar inn á lands­netið. Um er að ræða 74,5 metra háar notaðar vind­myllur frá Þýska­landi með spaða í topp­stöðu. Heildar­afl beggja mylla er upp á 1,2 mega­vött og ár­leg fram­leiðslu­geta á bilinu 4-4,5 gíga­vött. 

Tekist á um uppsetningu nýrra vindmylla

Í júlí 2017 kviknaði í annarri vind­myllunni og eyði­lagðist hún í brunanum. Stuttu síðar bilaði hin vind­myllan og hætti að fram­leiða raf­magn. Stein­grímur Er­lings­son, eig­andi Bio­kraft, greindi frá því að fyrir­tækið hafi keypt nýjar og hærri vind­myllur og að hann vildi setja þær upp. Það fékk hann hins vegar ekki í gegn vegna and­stöðu íbúa og sveitar­fé­lags Rang­ár­þings ytra. 

Tví­sýnt var um fram­tíð Bio­kraft í fyrra en vind­myllur fyrir­tækisins höfðu ekki fram­leitt raf­magn um mánaða­skeið síðasta sumar. Í kvöld­fréttum Stöðvar 2 var rætt við Stein­grím auk íbúa í Rang­ár­þingi ytra og sveitar­stjóra þess, Ágúst Sigurðs­son. 

Stein­grímur benti á að sau­tján ár væru liðin frá því fram­leiðsla af sams konar vind­myllum hafi verið hætt. Tæknin væri úr­elt og því þyrfti að leita nýrra leiða til að endur­nýja og koma fram­leiðslunni af stað aftur. 

Kom vindmyllunni í gang með Ebay-varahlutum

„Veistu það, ég veit það ekki. Maður þarf bara að fara með æðru­leysis­bænina. Þetta er ekki undir mér komið,“ sagði hann að­spurður um hvað hann hygðist gera fyrst að sveitar­fé­lagið sam­þykkti ekki breytingar á deili­skipu­laginu. 

Stuttu síðar greindi Vísir frá því að önnur myllan, sú sem áður var biluð, væri byrjuð að fram­leiða raf­magn að nýju. Hann hafi komið henni í gang sjálfur með vara­hlutum af Ebay. 

En nú hefur fé­lagið verið tekið til gjald­þrota­skipta, líkt og fyrr segir, en skipta­fundur í búinu fer fram í lok maí næst­komandi að sögn Reynis Þórs Garðars­sonar, skiptastjóra í búinu, sem Frétta­blaðið ræddi við. 

Ekki náðist í Stein­grím Er­lings­son, eiganda Biokraft, við vinnslu fréttarinnar.