Félagið FEA ehf., sem er í eigu Skúla Skúlasonar og hóps fjárfesta, varð eigandi allra hluta í flugfélaginu Play í byrjun maí. Þetta kemur fram í tilkynningu til fyrirtækjaskrár.

Félag Skúla, sem er einn eigenda flugþjónustufyrirtækisins Airport Associates og framkvæmdastjóri Express, umboðsaðila hraðsendingafyrirtækisins United Parcel Service á Íslandi, eignaðist Play þegar flugfélagið gat ekki greitt til baka brúarlán sem FEA veitti því fyrr í vetur.

Arnar Már Magnússon, forstjóri Play, staðfestir eigendaskiptin í samtali við Markaðinn. Hann segir að flest sé frágengið hjá Play nema kynning á áfangastöðum.

„Við erum með áform um áfangastaði en fyrstu þurfum við að sjá hvernig COVID-áhrifin þróast vegna þess að við viljum ekki lofa einhverju sem við getum ekki staðið við út af ytri aðstæðum,“ segir Arnar Már.

Samkvæmt heimildum Markaðarins hefur ráðgjafarfyrirtækið Eldjárn Capital, sem er í eigu Bjarnólfs Lárussonar og Ásmundar Gíslasonar, unnið að fjármögnun félagsins.

Skúli, sem varð stjórnarformaður Play í kjölfar eigendaskiptanna, sagði í viðtali við Viðskiptablaðið um miðjan júní að Play væri að „brenna á bilinu 200 til 300 þúsundum evra á mánuði í reksturinn“ sem samsvarar tæplega 50 milljónum króna.

Félagið gæti vel staðið undir því þangað til tekjurnar byrjuðu að streyma inn en hann sagðist vona að það yrði í haust. „Við erum með aðgang að nægri fjármögnun til að fara í loftið,“ sagði Skúli.

Þá sagði hann að allt væri tilbúið fyrir frágang á leigu á flugvélum en Play horfir eingöngu til Airbus-véla í þeim efnum. Ekki náðist í Skúla við vinnslu fréttarinnar.