Eignarhaldsfélagið RES II, sem er í meirihlutaeigu Sigurðar Bollasonar fjárfestis, hefur minnkað hlut sinn í Kviku banka um rúmlega tvö prósent af hlutafé fjárfestingabankans, jafnvirði um 450 milljóna króna miðað við núverandi hlutabréfaverð.

Samkvæmt upplýsingum Markaðarins hefur hluti bréfa RES II verið færður í fjármögnun í gegnum framvirka samninga hjá fjármálastofnun.

Í tilkynningu sem birtist í Kauphöllinni rétt í þessu kemur fram að RES II sé með skrá í eigin nafni samtals 55,35 milljónir hluta að nafnvirði, eða sem nemur þriggja prósenta hlut í bankanum. Markaðsvirði þess hlutar er um 670 milljónir króna.

Eignarhlutur RES II í Kviku hefur minnkað talsvert að undanförnu – hann var tæplega 6,2 prósent í byrjun mánaðarins – en í árslok 2018 var félagið næst stærsti hluthafi bankans með 9,17 prósenta hlut.

Sigurður kom fyrst inn í hluthafahóp Kviku í árslok 2016. Hann er einnig á meðal stórra hluthafa í Kortaþjónustunni og þá hefur hann, eins og upplýst var um í Markaðinum fyrir skemmstu, byggt upp stöðu í Arion banka að undanförnu og nemur eignarhlutur félaga tengdum honum í bankanum nú í kringum tvö prósent.

Fréttin var uppfærð kl 16.35

Félag Sigurðar Bollasonar var næst stærsti hluthafi Kviku í árslok 2018 með tæplega 9,2 prósenta hlut.

Hlutabréf í Kviku banka, sem var skráður á aðallista Kauphallarinnar í lok síðasta mánaðar, hafa hækkað um liðlega 40 prósent í verði frá áramótum. Er markaðsvirði bankans í dag nærri 22 milljarðar króna. Talsverð velta hefur verið með bréf Kviku það sem af er þessum mánuði en í dag hefur gengi bréfa félagsins hækkað um 1,36 prósent í 20 milljóna króna veltu.

Bréfin ruku upp um hátt í níu prósent á mánudag eftir að bankinn greindi frá því að afkoma fyrsta ársfjórðungs hefði verið umtalsvert betri en gert hafði verið ráð fyrir.