Eignarhaldsfélagið RES II, sem er í eigu hjónanna Sigurðar Bollasonar fjárfestis og Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur, seldi í dag ríflega 2,5 prósent í Kviku banka fyrir 400 milljónir króna. Í kjölfar sölunnar fer félagið - bæði í eigin nafni og í gegnum framvirka samninga - með ríflega þriggja prósenta hlut í fjárfestingabankanum.

Greint er frá viðskiptunum í flöggunartilkynningu sem barst kauphöllinni síðdegis í dag. Þar kemur fram að félag Sigurðar og Nönnu Bjarkar fari nánar tiltekið með 2,6 prósenta beinan hlut í bankanum og 0,4 prósenta hlut í gegnum framvirka samninga.

RES II, sem kom fyrst inn í hluthafahóp Kviku í árslok 2016, seldi fimmtíu milljónir hluta í framvirkum samningum í Kviku banka á genginu átta krónur á hlut og nam söluverðið því 400 milljónum króna, eins og áður sagði.

Er samanlagður þriggja prósenta eignarhlutur félagsins í bankanum metinn á liðlega 500 milljónir króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa hans.

Hlutabréfaverð í Kviku banka hækkaði um rúm 1,4 prósent í tæplega 500 milljóna króna veltu í viðskiptum dagsins. Stendur gengi bréfanna nú í 8,45 krónum á hlut en það hefur lækkað um fimmtung frá áramótum.

Sigurður Bollason fjárfestir.