Hagnaður Mókolls, eignarhaldsfélags í eigu Péturs Guðmundssonar sem er meðal annars móðurfélag verktakafyrirtækisins Eyktar og Höfðatorgs, dróst saman um 37 prósent á milli ára og nam 1,4 milljörðum króna við árslok. Ekki verður greiddur út arður.

Rekstrartekjur jukust um 11,7 milljarða króna á milli ára og námu 17,4 milljörðum króna árið 2018.

Arðsemi eiginfjár var 12 prósent, eigið fé var 13 milljarða króna og eiginfjárhlutfallið var 30 prósent.

Árið 2018 fjárfesti það fyrir 3,6 milljarða króna í eignum í byggingu samanborið við 2,2 milljarða króna árið áður. Fjárfest var í hlutabréfum fyrir 723 milljónir króna en árið áður var ekkert fjárfest í slíkum eignum.

Fram hefur komið í fréttum að félag í eigu Mókolls keypti 40 prósenta hlut í Steypustöðinni í fyrra og átti eftir kaupin 90 prósenta hlut í fyrirtækinu.

Á meðal annarra eigna Mókolls má nefna Loftorku Borgarnesi sem keypt var árið 2016.

Hagnaður verktakafyrirtækisins Eykt dróst saman um 38 prósent á milli ára og nam 108 milljónum króna árið 2018. Tekjur jukust hins vegar um 2,4 milljarða króna á milli ára og námu 8,4 milljörðum króna.