ÓDT Ráðgjöf, félag í eigu Ólafs D. Torfasonar, stofnanda Íslandshótela, var með 14 milljarða í eigið fé í árslok 2018. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi félagsins.

Eignir félagsins námu 14.158 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið því um 99 prósenta. ÓDT Ráðgjöf hagnaðist um 1.304 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 323 milljónir árið 2017. Stjórn félagsins hefur lagt til að ekki verði greiddur út arður til hluthafa á árinu 2019.

Langstærsta eign ÓDT Ráðgjafar er ein stærsta hótelkeðja landsins, Íslandshótel, sem rekur sautján hótel um allt land, þar af sex í Reykjavík. Hótelkeðjan hagnaðist um 1.430 milljónir króna í fyrra en afkoman var hins vegar neikvæð um 184 milljónir króna á fyrri helmingi þessa árs.

ÓDT Ráðgjöf seldi 58 prósenta hlut sinn í fasteignafélaginu Vellir 15 vorið 2018 til Georgs Gíslasonar sem er bróðir Rúriks, landsliðsmanns í knattspyrnu. Félagið á um 180 íbúðir en um 70 prósent þeirra eru á höfuðborgarsvæðinu, einkum í Vallahverfinu í Hafnarfirði. Samkvæmt ársreikningi voru fasteignir félagsins metnar á 3,1 milljarð króna árið 2017.