Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem er er í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra Brims, hefur keypt um tíu prósenta hlut í Brimi af FISK-Seafood. Kaupverðið er 7,9 milljarðar króna. Eftir kaupin fer félagið með 48 prósenta hlut í Brimi. Gengið í viðskiptunum var 40,4.

Hér er ekki tekið til­lit til hluta­fjár­aukn­ingar sem sam­þykkt var á hlut­hafa­fundi Brims hinn 15. ágúst síð­ast­lið­inn þar sem ákveðið var að auka hlutafé um 7,3 pró­sent í því skyni að kaupa sölufélög í Asíu af Útgerð­­­ar­­­fé­lagi Reykja­víkur á 4,4 millj­­­arða króna. 

„Rétt er að taka fram að ÚR stefnir að því að hlutur þess af heildarhlutafé Brims hf. verði undir helmingi til frambúðar,“ segir í tilkynningu. Brim hét áður HB Grandi.

FISK Seafood, sem er í eigu Kaupfélags Skagfirðinga, keypti hinn 19. ágúst 8,3 prósenta hlut Gildis lífeyrissjóðs í Brimi fyrir rúmlega fimm milljarða króna. Fyrir eignarhlutinn í Brim fékk Gildi meðal annars afhent bréf FISK-Seafood í Högum, en sjávarútvegsfyrirtækið átti samanlagt tæplega 4,6 prósenta hlut í smásölurisanum.

Sala Gildis í Brimi kemur í kjölfar hluthafafundar útgerðarfélagsins í síðustu viku þar sem tillaga stjórnar um kaup á öllu hlutafé í sölufélögum í Japan, Hong Kong og á meginlandi Kína var samþykkt.

Gildi gagnrýndi kaupin og sagði þau eiga sér afar skamman aðdraganda hjá stjórn Brims. Að mati lífeyrissjóðsins voru þessar fyrirætlanir ekki trúverðugar og ekki hafi verið sýnt fram á að aðrar leiðir að sömu markmiðum, og með minni tilkostnaði, væru ófærar.

„Viðskipti milli tengdra aðila verða að vera hafin yfir vafa og að mati sjóðsins hefur ekki tekist að sýna fram á að þessi viðskipti séu hagfelld og nauðsynleg fyrir HB Granda,“ kom fram í tilkynningu Gildis í aðdraganda hluthafafundarins.

FISK-Seafood, sem er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, gekk á síðasta ári frá kaupum á öllum eignarhlut Útgerðarfélags Reykjavíkur, sem er stærsti hluthafi Brims, í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum en um var að ræða þriðjungshlut. Kaupverðið nam 9,4 milljörðum króna.

Samkvæmt upplýsingum frá Creditinfo á Guðmundur Kristjánsson 75 prósenta hlut í Útgerðarfélagi Reykjavíkur og systkini hans Sigurrós og Hjálmar Þór eiga 12,5 prósenta hlut.