Eignarhaldsfélagið Kristinn, sem er í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur útgerðarkonu og fjárfestis, tapaði 500 milljónum króna á síðasta ári en tapið má að mestu leyti rekja til niðurfærslu á bókfærðu virði dótturfélaga.

Kristinn heldur utan um eignarhluti Guðbjargar í framleiðslu- og heildsölufyrirtækinu ÍSAM, Korputorgi, sex öðrum fasteignafélögum og Kassagerð Reykjavíkur, sem eru bókfærðir á samtals 8,3 milljarða króna. Félagið á einnig verðbréf sem voru bókfærð á 8,9 milljarða.

Niðurfærsla á dótturfélögum nam samtals 1.336 milljónum króna og vó þar mest niðurfærsla á ÍSAM sem nam milljarði króna. Vaxtatekjur og verðbreytingar markaðsverðbréfa voru hins vegar jákvæðar um 1.267 milljónir. Eftir taprekstur ársins er eigið fé Kristins rétt tæplega 20 milljarðar króna.

ÍV fjárfestingafélag, sem er einnig í eigu Guðbjargar, hagnaðist hins vegar um tæplega 1,2 milljarða króna á síðasta ári. Félagið heldur meðal annars utan um eignarhluti í Ísfélagi Vestmannaeyja og Tryggingamiðstöðinni. Bókfært virði eignarhlutarins í Ísfélaginu, sem nemur 89 prósentum, nam tæplega 15,5 milljörðum króna í lok síðasta árs og hækkaði um tæplega 1,7 milljarða á árinu. Það er langstærsta eign félagsins en alls nema þær 17 milljörðum króna.

Eigið fé ÍV fjárfestinga nam tæplega 17 milljörðum í lok ársins. Samanlagt eigið fé beggja félaga nemur því 37 milljörðum króna.