Félag í eigu hjónanna Boga Þórs Siguroddssonar og Lindu Bjarkar Ólafsdóttur, sem eru eigendur heildverslunarinnar Johan Rönning, er komið á lista Arion banka yfir stærstu hluthafa bankans.

Félagið Bóksal á 1,35 prósenta hlut í Arion banka sem er metinn á 3,2 milljarða króna miðað við núverandi markaðsgengi bankans. Eignarhlutur félagsins hefur aukist töluvert á síðustu vikum en í byrjun apríl nam hlutur þess 0,45 prósentum.

Bóksal er í sæti 21 á hluthafalistanum en ef litið er fram hjá lífeyrissjóðum og sjóðastýringarfyrirtækjum er Bóksal þriðja stærsta fjárfestingafélagið á eftir Stoðum og Hval.

Bóksal hefur á síðustu mánuðum orðið umsvifamikið fjárfestingafélag í Kauphöllinni. Félagið er á einnig á meðal stærstu hluthafa Reita, þar sem 1,1 prósenta hlutur félagsins er metinn á 600 milljónir, Kviku banka, þar sem 1,77 prósenta hlutur þess er metinn á tæplega 1,9 milljarða króna, og loks er félagið stærsti einkafjárfestirinn í Icelandair. Bóksal á 2,3 prósenta hlut í flugfélaginu sem er metinn á ríflega 900 milljónir króna.

Þá greindi Markaðurinn frá því í byrjun júní að eignarhaldsfélagið Sindrandi, sem er einnig í eigu Boga Þórs og Lindu Bjarkar, hefði keypt 10 prósenta hlut í Ölgerðinni. Sindrandi átti fyrir um 4 prósenta hlut og fer því með 14 prósenta hlut eftir kaupin.

Hlutabréf Arion banka hafa hækkað töluvert á síðustu vikum og mánuðum. Hækkunin á síðustu 30 dögum nemur ríflega 13 prósentum og ef litið er aftur til byrjun árs nemur hækkunin 50 prósentum.