Vænting, fjárfestingafélag Bláa lónsins, hefur bætt við sig sautján milljónum hluta í Icelandair Group fyrir ríflega sextíu milljónir króna, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa flugfélagsins.

Í kjölfar kaupanna fer félagið með liðlega 1,3 prósenta hlut í Icelandair Group.

Þá hefur Högni Pétur Sigurðsson, fjárfestir og eigandi Hard Rock Cafe á Íslandi, bætt umtalsvert við hlut sinn í flugfélaginu að undanförnu. Hann fer nú með 1,3 prósenta hlut í félaginu í eigin nafni, borið saman við 1,0 prósenta hlut í lok febrúar, og þá er félag hans Nautica auk þess komið í hóp tuttugu stærstu hluthafa Icelandair Group með tæplega 0,9 prósenta hlut. Högni Pétur er þar með orðinn stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi félagsins.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins og Birta lífeyrissjóður hafa enn fremur bætt lítillega við sig í Icelandair Group á allra síðustu vikum. Hins vegar hafa Stapi lífeyrissjóður og Úrvalsbréf, hlutabréfasjóður í stýringu Landsbréfa, á sama tíma minnkað við sig en í litlum mæli þó.

Hlutabréf í Icelandair Group hafa lækkað um nærri sextíu prósent í verði undanfarnar fimm vikur en félagið hefur – líkt og önnur flugfélög í heiminum – orðið harkalega fyrir barðinu á ferðatakmörkunum sem stjórnvöld víða hafa sett til þess að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar.