Félag Michelle Roosevelt Edwards fjárfestis, sem festi kaup á ýsmum eignum úr þrotabúi WOW air, hyggst ekki greiða Sturlu Þorvaldssyni og Róberti Leifssyni, eigendum Maverick ehf., 40 milljónir í vangoldin laun þrátt fyrir dóm Héraðsdóms Reykjavíkur þar að lútandi.

Lögmaður Ballarin hér á landi, Páll Ágúst Ólafsson, segir í tölvupósti til lögmanns Maverick að Bandaríkin séu ekki aðili að Lúganósamningnum og þar af leiðandi þurfi að höfða mál í Bandaríkjunum til staðfestingar á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í því fylki sem USAeropspace Associates LLC, félag Ballarin, hafi lögheimili.

Lúganósamningurinn snýr dómsvaldi ríkja og fullnustu dóma í einkamálum. Ekki náðist í Pál Ágúst við vinnslu fréttarinnar.

Haukur Örn Birgisson, lögmaður Maverick, segir að í verksamningi milli USAeropspace Associates og Maverick sé ákvæði um allur ágreiningur skuli útkljáður fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Það samningsákvæði hafi meira að segja verið sett inn í samninginn að frumkvæði bandaríska félagsins.

„Fyrst og fremst er þetta vitnisburður um lélega viðskiptahætti. Maverick vann málið að fullu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, en USAeropspace Associates vilja núna að við eltum þá til Bandaríkjanna til að fá kröfuna greidda. Það er mjög ólíklegt að bandarískur dómstóll muni taka málið fyrir vegna þessa ákvæðis um að ágreiningur skuli leystur fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur,“ segir Haukur Örn.

Hvað varðar næstu skref segir Haukur að krafan verði ekki felld niður: „Það er ekki ljóst hverjar eignir USAeropspace Associates í Bandaríkjunum eru. Við munum kanna allar leiðir til að fá hana greidda. En í öllu falli finnst manni furðulegt að þessir aðilar, sem ætluðu að koma á kopp flugfélagi hér á landi og eiga í viðskiptum við landsmenn, skuli haga sér með þessum hætti.“

Sögðu hugbúnaðinn gallaðan

Maverick setti upp bókunarkerfi fyrir USAeropspace Associates LLC. Maverick höfðaði mál þegar samningi við forritarana var sagt upp án fyrirvara í ársbyrjun 2020.

Félag Ballarin, hverrar rétt eftirnafn er Edwards, var dæmt til þess að greiða Sturlu og Róberti fjörutíu milljónir auk dráttarvaxta frá september til nóvember 2019 auk málskostnaðar upp á eina og hálfa milljón króna.

Málatilbúnaður USAeropspace Associates sneri að því að hugbúnaður Maverick hefði verið gallaður, en Héraðsdómur taldi ekki sannað að svo væri. Samskipti Páls Ágúst Ólafssonar við forritarana í gegnum samskiptaforritið Whatsapp hafi svo falið í sér margítrekuð loforð lögmannsins um greiðslur, sem svo aldrei bárust.