Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar, fékk greiddar hátt í þrjátíu milljónir króna fyrir störf í gerðardómi í þremur málum sem varða sölu eignaumsýslufélagsins ALMC á hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail á árunum 2016 til 2020. Hann starfaði sem gerðarmaður í málunum að stórum hluta samhliða embættisstörfum sínum fyrir Landsrétt.

Úrskurður í umræddum málum, sem voru rekin fyrir gerðardómi í einu lagi, var kveðinn upp í liðinni viku en Davíð Þór var skipaður gerðarmaður til þess að fara með málin um mitt ár 2016.

Ári síðar, um mitt ár 2017, var hann skipaður dómari við Landsrétt frá og með 1. janúar 2018 en hann tók þar til starfa í október árið 2018 eftir að hann lauk störfum sem settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu svonefnda.

Í kjölfar skipunar Davíðs Þórs sem dómara við Landsrétt á sumarmánuðum ársins 2017 starfaði hann þannig í nærri þrjú ár í gerðardómi í áðurnefndum málum og þar af í um eitt og hálft ár eftir að hann tók til starfa við réttinn.

Davíð Þór segir í samtali við Fréttablaðið að hann hafi starfað sem prófessor við lagadeildir Kaupmannahafnarháskóla og Háskóla Íslands þegar hann var skipaður gerðarmaður árið 2016.

Ekki hafi þá legið fyrir hvert yrði endanlegt umfang og tímalengd starfsins í gerðardómi.

Í kjölfar skipunar hans við Landsrétt hafi hann – í samræmi við reglur um aukastörf dómara – óskað eftir heimild nefndar um dómarastörf til þess sitja áfram í gerðardómi í málunum. Hana hafi hann fengið.

Þegar störfum hans í gerðardómi lauk hafi hann svo tilkynnt nefndinni um það.

Almennt óheimilt að taka að sér aukastörf

Samkvæmt fyrrnefndum reglum um aukastörf dómara er dómurum að meginstefnu til óheimilt að taka að sér önnur störf samfara dómarastörfum sínum. Frá því getur þó nefnd um dómarastörf veitt undanþágu „ef ljóst er að slíkt er ekki ósamrýmanlegt stöðu dómara eða leiðir af sér hættu á að hann geti ekki sinnt embættisstarfi sínu sem skyldi“, eins og segir í þriðju grein reglnanna.

Almennt skal ákvörðun nefndarinnar um hvort heimila skuli dómara að gegna tilteknu aukastarfi byggð á heildarmati á aðstæðum dómarans, eins og kveðið er á um í reglunum, og eðli þeirra starfa sem um ræðir í hvert sinn.

Þeir lögmenn sem Fréttablaðið ræddi við segja að þó svo að það hafi tíðkast í gegnum tíðina að dómarar taki að sér ýmis aukastörf, svo sem í gerðardómi, samhliða hefðbundnum dómarastörfum þá þekkist það ekki að aukastörfin séu það umfangsmikil og tímafrek að endurgjald fyrir þau nemi á heildina litið tugum milljóna króna.

Kostnaður af gerðardómsstörfum Davíðs Þórs í málunum þremur, en hann var skipaður í dóminn af dómstjóra Héraðsdóms Reykjavíkur og sat þar einn, var samanlagt nokkuð yfir þrjátíu milljónir króna með virðisaukaskatti.

Nefnd um dómarastörf telur það ekki á sínu verksviði að krefjast upplýsinga um fjárhæð þess endurgjalds sem dómarar fá fyrir aukastörf sem þeir taka að sér.
Fréttablaðið/Ernir

Í svari nefndar um dómarastörf við fyrirspurn Fréttablaðsins segir að nefndinni hafi verið heimilt að leyfa Davíð Þór að ljúka fyrrnefndum gerðarmálum þar sem hann hafi verið skipaður til verksins sem hlutlaus aðili.

Er þá vísað til sjöttu greinar reglna um aukastörf dómara en þar segir meðal annars að bann við að dómari sitji í gerðardómi eigi ekki við ef tilnefning í dóminn stafi frá þeim sem falið sé í gerðarsamningi að tilnefna dómara. Þó þarf dómari samkvæmt ákvæðinu eftir sem áður að leita heimildar nefndarinnar fyrir því að taka að sér störf í gerðardómi.

Þá segir jafnframt í svari nefndarinnar, sem formaðurinn Hjördís Björk Hákonardóttir skrifar undir, að sú vinnuregla hafi verið tekin upp við gildistöku nýrra dómstólalaga nr. 50/2016, þar sem kröfur til aukastarfa dómara hafi verið hertar, að heimila almennt nýjum dómurum að ljúka þeim aukastörfum sem þeir hafi haft á hendi þegar þeir voru skipaðir.

Fær ekki upplýsingar um fjárhæð endurgjalds

Nefndin tekur enn fremur fram í svari sínu að hún fari fram á upplýsingar um hvort endurgjald sé greitt vegna aukastarfa og hver greiði, ef það liggi ekki ljóst fyrir, en hún telji það hins vegar ekki á sínu verksviði að krefjast upplýsinga um fjárhæð endurgjalds hverju sinni.

Á meðal annarra aukastarfa sem Davíð Þór, sem var dómari við Mannréttindadómstól Evrópu í níu ár, hefur tekið að sér og upplýst er um á vef Dómstólasýslunnar eru kennslustörf við Háskólann í Reykjavík, störf sem rannsóknarprófessor við Háskóla Íslands og sem oddamaður í starfsráði Ice­landair.

Davíð Þór fékk jafnframt greidda rúmlega eina og hálfa milljón króna fyrir lögfræðiráðgjöf sem hann veitti ríkislögmanni við ritun greinargerðar til Mannréttindadómstóls Evrópu vegna Landsréttarmálsins á árinu 2018, eins og áður hefur komið fram í fréttum. Ráðgjöfina veitti hann eftir að hann var skipaður við Landsrétt en áður en hann tók þar til starfa.