Jón Arnór Stefánsson, fyrrverandi körfuboltamaður, hefur tekið við starfi sem sérfræðingur í eignastýringu hjá Fossum mörkuðum. Jón Arnór kveðst hafa haft áhuga á viðskiptum og mörkuðum lengi en hann byrjaði að fjárfesta um tvítugt.

„Það voru komin ákveðin kaflaskil í lífi mínu. Ég hóf nýlega MBA-nám við Háskólann í Reykjavík og íþróttaferillinn sem hefur einkennt allt mitt líf lengi vel endaði. Því var kominn tími á nýja áskorun,“ segir Jón og bætir við að áhugi hans á fjármálum hafi kviknað snemma.

„Ég var með erlendan aðila sem sá um fjármálin mín og hann menntaði mig í þessu þar sem ég hafði gríðarlegan áhuga á því að læra meira.“

Jón Arnór vann áður hjá umboðsskrifstofunni BDA Sports Management og segir hann þá reynslu hafa verið afar lærdómsríka.

„BDA Sports Management er bandarísk umboðsskrifstofa sem vinnur með leikmönnum úti um allan heim, bæði í NBA, sterkustu deildum Evrópu og Asíu. Ég hafði verið kúnni hjá þeim frá 18 ára aldri og myndað sterk tengsl þar. Í kjölfarið bauðst mér vinna hjá þeim sem ég þáði. Það sem var svo áhugavert við það starf er að ég gat tengt saman körfuboltann sem ég þekkti svo vel við viðskiptahliðina.“

Aðspurður hvernig nýja starfið leggist í hann segir Jón Arnór að hann sé spenntur fyrir komandi tímum.

„Þetta leggst ótrúlega vel í mig. Ég er þakklátur fyrir að fá þetta tækifæri og traust frá Fossum og vinna með því flotta fólki sem vinnur hér. Það eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast innanhúss eins og fram hefur komið og ég er ótúrlega stoltur og þakklátur.“