Undanfarna fjóra mánuði, frá júní til september, hefur töluvert meira fé streymt í hlutabréfasjóði en úr þeim. Samtals um 2,6 milljarðar króna á tímabilinu eða um 655 milljónir króna að meðaltali í hverjum mánuði. Viðsnúningurinn hófst í júní, samkvæmt tölum frá Seðlabankanum.

Sérfræðingar á hlutabréfamarkaði telja ástæðuna fyrir því að aukið fé leiti í hlutabréfasjóði vera lágt vaxtastig.

Góð stemning á markaði

„Það er búin að vera góð stemning á hlutabréfamarkaði undanfarnar vikur sem meðal annars sést á töluverðu innflæði í hlutabréfasjóði,“ segir Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.

Frá október 2019 fram í janúar 2020 var stanslaust innflæði í hlutabréfasjóði þegar fjárfestar lögðu þeim til meira fé en tekið var úr þeim. Þegar COVID-19 blossaði upp með tilheyrandi óvissu um hver áhrifin yrðu á efnahagslífið drógu fjárfestar fé úr sjóðunum í meira mæli en lagt var inn. Í febrúar námu nettó úttektir 2,4 milljörðum króna úr sjóðunum, 2,2 milljörðum í mars og samtals 838 milljónum í apríl og maí. Samtals var um að ræða 5,4 milljarða króna.

Sparifjáreigendur í leit að góðri ávöxtun

Kjartan Smári segir að flestum skráðu félögunum hafi gengið vel að takast á við áskoranir ársins og á heildina litið sé staða skráðra félaga sterk hér á landi. „Á sama tíma hafa vextir á innlánum lækkað hratt og sparifjáreigendur í leit að góðri ávöxtun þurfa að dreifa eignasafni sínu á milli skuldabréfa, hlutabréfa og innlána. Það er áhugavert að skoða misgóðan árangur innlendra hlutabréfasjóða en nú liggur ársávöxtun þeirra allt frá 26 prósentum niður í átta prósent,“ segir hann.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða.
Aðsend/Íslandssjóðir

Frá því í mars hafa mörg félög hækkað verulega í verði og fimm lækkað í verði.

Eignir hlutabréfasjóða námu 70,3 milljörðum í september og jukust um 18 prósent frá því í mars. Í janúar námu eignir sjóðanna 75,7 milljörðum króna en í mars höfðu þær lækkað um 21 prósent í 59,7 milljarða króna.