Flug­fé­lagið Play Air hyggst ráða stóran hóp flug­liða í haust, segir Jónína Guð­munds­dóttir mann­auðs­stjóri Play Air í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Fast­ráðning getur átt sér stað strax við ráðningu, en þetta á­kvæði gefur okkur mögu­leika á tíma­bundnum ráðningum ný­liða í fram­tíðinni.“ segir Jónína. Allir flug­liðar séu ráðnir inn á sex mánaða reynslu­tíma en á­ætlað er fast­ráða stóran hóp í haust.

Að­spurð um laun flug­liða, sem hafa verið mikið í um­ræðunni síðustu vikur, segir hún að flug­liðar fái að lág­marki 260 þúsund krónur á mánuði. Með fleiri launa­liðum, svo sem sölu­tryggingu að and­virði 34 þúsund krónum og bif­reiða­styrk sem er rúm­lega 50 þúsund krónur. Hún segir að flug­liðar fái því minnst 351 þúsund krónur á mánuði í laun í lægsta launa­þrepi.

„Að því sögðu þá erum við reyndar ekki að ráða neinn inn á þennan lægsta launa­flokk, þar sem við metum alla reynslu og þeir sem eru komnir til starfa núna eru reyndar lang­flestir í næst hæsta launa­flokknum, sem eru 320 þúsund krónur á mánuði án sölu­tryggingar og bif­reiða­styrks,“ segir Jónína.