Hækkun á fast­eigna­mati hefur ekki verið meira milli ára frá því fyrir hrun í það minnsta. Að meðal­tali hækkaði fast­eigna­mat í­búða á höfuð­borgar­svæðinu um 23,6 prósent milli ára, sam­kvæmt nýrri mánaðar­skýrslu Hús­næðis- og mann­virkja­stofnunnar.

Fast­eigna­mat sér­býla á höfuð­borgar­svæðinu hækkaði um 26 prósent en um 28,4 prósent í ná­granna­sveita­fé­lögum. Í­búðir í fjöl­býli hækkuðu um 21,7 prósent á höfuð­borgar­svæðinu en 22,7 prósent í ná­granna­sveita­fé­lögum.

Hlutfall hækkunnar á fasteignamati eftir sveitarfélögum.
Mynd/HMS

Frá upp­hafi mælinga hefur ekki mælst jafn stuttur meðal­sölu­tíma í­búða á höfuð­borgar­svæðinu en í apríl á þessu ári en þá voru það 34,7 dagar. Þá var annað met slegið þar sem 54 prósent í­búða á landinu seldust yfir á­settu verði.

Á höfuð­borgar­svæðinu voru 65 prósent í­búða í fjöl­býli seld yfir á­settu verði og 53 prósent sér­býla. Á lands­byggðinni voru það 48 prósent í­búða í fjöl­býli og 32 prósent sér­býla.

Meðal­kaup­verð í­búða á höfuð­borgar­svæðinu var 76,9 milljón krónur í apríl en á sama tíma í fyrra var það 60,6 milljón krónur. Í­búðir í fjöl­býli seldust að meðal­tali á 67,4 milljón krónur en í­búðir í sér­býli á 104,9 milljón krónur.

Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði.
Mynd/HMS

Ó­verð­tryggðir breyti­legir vextir hækkuðu um 0,7 til 1 prósentu­stig en verð­tryggðir vextir lækkuðu og eru nú minnst 1,35 prósent hjá bönkunum og 1 prósent hjá líf­eyris­sjóðum.

Tals­vert hefur róast á fast­eigna­markaði en færri kaup­samningar voru gefnir út núna í apríl en síðustu tvö árin á undan. Þeir hafa ekki verið færri síðan í maí 2020.

Leigu­verð hefur ekki mælst lægra sem hlut­fall af launum frá því HMS hóf mælingar árið 2013. Hlut­fallið náði há­marki við lok árs 2018 en mælist nú 15,6 prósent lægra en þá.