Fasteignamarkaðurinn hefur verið til vandræða, hann hafi keyrt áfram verðbólguna og búast má við að það hljóti að fara að koma að þolmörkum. Þetta sagði Una Jónsdóttir, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður á Hringbraut í kvöld.

„Við erum ekki að spá lækkun á fasteignamarkaði á næstunni en erum að spá hóflegum hækkunum. Við gerum ráð fyrir að íbúðaverð hækki um 20 prósent milli ára í ár og er það vegna þeirra hækkana sem þegar eru komnar fram en íbúðaverð hefur hækkað mikið a fyrstu mánuðum þessa árs,“ segir Una og bætir við að búast megi við 8 prósent hækkun á næsta ári og 4 prósent hækkun árið eftir.

„Við höfum séð íbúðaverð vera í bylgjum og nú má gera ráð fyrir að það komi rólegri taktur þar sem stýrivextir munu að öllum líkindum hækka talsvert og mikið magn íbúða er í uppbyggingu.“