Kaup Íslendinga á fasteignum á Spáni hafa dregist eilítið saman á þessu ári eftir tvö metár í röða hjá Íslandsdeild spænsku fasteignasölunnar Medla, segir í tilkynningu. Á síðasta ári nam salan 8,2 milljónum evra, jafnvirði um 1,1 milljarða króna.

„Salan hefur dregist eitthvað saman síðan í vor, síðan Wow Air fór í gjaldþrot. Verkföll og gengi krónunnar höfðu líka sitt að segja. Það er eins og Ísland hafi verið á varðbergi gagnvart kreppuástandi og allir að bíða storminn af sér. Þetta er svo sem í takt við það sem hefur verið að gerast á Íslandi þar sem rólegt hefur verið yfir fasteigna- og bílamarkaðnum. Auk þess var veðurblíðan með eindæmum góð á Íslandi í sumar, það hefur sitt að segja. Með haustinu er að komast hreyfing á þetta aftur og vonandi eigum við góðan lokasprett núna með landanum. Enn eru eftir þrír mánuðir af árinu og við stefnum að því að slaga hátt í tölur síðustu tveggja ára,” segir Steina Jónsdóttir, markaðsstjóri Íslandsdeildar fasteignasölunnar Medland.

Hún segir að Íslendingar sæki ýmist í íbúðir í góðum kjörnum með aðgangi að sundlaug eða falleg einbýli með einkasundlaug. Vinsælustu eignirnar séu annars vegar um 80 fermetra íbúðir og hins vegar 120-130 fermetra einbýlishús.

Meiri lífsgæði við Miðjarðarhafið

„Staðsetningin við Miðjarðarhafið býður upp á meiri lífsgæði. Fólk sækir í birtuna og veðurblíðuna auk þess sem verðlagið er sérlega hagstætt. Flestir okkar viðskiptavinir eru fólk sem er að bæta við sig eign. Við erum með frekar fáa sem eru að kaupa til þess að flytja alfarið til Spánar en það eru þó einhver dæmi um það," segir hún.

Verð á fasteignum sem Medlan hefur til sölu er frá 12 milljónum króna til 500 milljóna króna fyrir lúxus villur. Medland verður með kynningu á fasteignum á Spáni í Hörpu um helgina. Þetta er þriðja stóra ráðstefnan sem Medland skipuleggur fyrir Íslendinga þar sem við bjóðum byggingaraðilum frá Spáni með okkur.