Greiningarfyrirtækið Jakobsson Capital hefur hækkað verðmat sitt á Eik fasteignafélagi um 4 prósent eftir birtingu síðasta árshlutauppgjörs. Verðmatið er nú rúmir 48 milljarðar samanborið við tæpa 47 milljarða áður og verðmatsgengið hækkar úr 13,6 upp í 14,1. Verðmatsgengið er því tæplega 40 prósentum yfir markaðsgengi.

„Gengið náði hámarki 2017 og hefur ekki borið sitt barr síðan,“ segir í verðmatinu. „Að mati greinanda eru horfurnar þó ekkert sérstaklega bjartar fyrir fasteignafélögin. Þrátt fyrir það er það niðurstaða greinanda að Eik sé mjög vanmetið á markaði.“

Greinandinn Jakobsson Capital bendir á að almennt hafi COVID haft lítil áhrif á afkomu Eikar ef frá er skilið 1919 Hótel. Varúðarfærslur má fyrst og fremst rekja til hótela og veitingahúsa sem saman mynda 12 prósent af eignasafni Eikar. Skrifstofuhúsnæði nemur um 46 prósentum af eignasafninu.

„Hins vegar er líklegt að langtímaáhrifin verði nokkur þótt skammtímaáhrifin hafi verið lítil. Fólk vinnur meira heima og sársaukalausasti niðurskurðurinn er niðurskurður í húsnæðiskostnaði,“ segir í verðmatinu.

Að mati greinandans ættu fasteignafélögin nú fremur að horfa á fjárhagslegan styrk og einbeita sér að því að ná hagstæðari fjármögnun. Þau ættu að horfa frekar til greiðslu arðs en til vaxtar.

„Mikil uppbygging skrifstofuhúsnæðis og hótelhúsnæðis er í miðborginni. Blikur eru á lofti þar ef ekki rætist úr stöðunni á næstu misserum. Eik hefur verið mjög fjárfestingarlétt og er fjármögnun félagsins hagstæðust fasteignafélaganna,“ segir í verðmatinu.