Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita sem meðal annars á Kringluna, segir að fasteignafélagið sé til viðræðu um að veita greiðslufrest á stórum hluta leigugreiðslna einn mánuð í senn til þeirra viðskiptavina sem það þurfa vegna samdráttar sökum kórónaveirunnar. „Við höfum ekki átt í viðræðum um að fella niður leigu eða veita afslætti. Við þurfum að reyna að sjá stóru myndina í þessu, óvissan er mikil eins og er,“ segir hann.

„Rykið á eftir að setjast og þá munum við betur átta okkur á okkar hlutverki í þessu,“ segir Guðjón Auðunsson, forstjóri Reita sem meðal annars á Kringluna.
Fréttablaðið/Daníel Rúnarsson

Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins sem meðal annars á Smáralind, segir að fasteignafélagið veiti viðskiptavinum sveigjanleika með því að veita greiðslufresti, rétt eins og ríkisstjórnin bauð fyrirtækjum að gera varðandi til-teknar skattgreiðslur. Aðspurður hvort sveigjanleikinn geti falist í lægri leigugreiðslum segir hann svo ekki vera. „Við getum ekki tekið á okkur slíkt högg. Ekki fáum við afslátt af fasteignagjöldum eða vaxtagreiðslum. Það getur enginn einn í virðiskeðjunni gert eitthvað allt annað en allir hinir,“ segir hann.

Guðjón segir að það þurfi samstillt átak til að komast í gegnum efnahagsáfallið sem hlýst af kórónaveirunni. Stjórnvöld hafi kynnt sínar aðgerðir og þær muni hjálpa fyrirtækjum í gegnum tímabundna erfiðleika í rekstri. „Aðgerðirnar miðast meðal annars að því að viðskiptabankarnir geti aukið útlán sín. Rykið á eftir að setjast og þá munum við betur átta okkur á okkar hlutverki í þessu,“ segir hann.

„Við getum ekki tekið á okkur slíkt högg. Ekki fáum við afslátt af fasteignagjöldum eða vaxtagreiðslum,“ segir Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins sem meðal annars á Smáralind.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Nú hafa tíu verslanir og veitingastaðir lokað í Kringlunni vegna herts samkomubanns og fimm verslanir lokað í Smáralind.

Helgi bendir á að Smáralind sé 15 prósent af veltu Regins og Guðjón nefnir að hlutfall Kringlunnar sé einnig 15 prósent af tekjum Reita í eðlilegu árferði.