Tæplega 70 prósent af veltu á hlutabréfamarkaði það sem af er degi má rekja til viðskipta með bréf þriggja fasteignafélaga. 

Eik hefur hækkað 2,6 prósent og Reitir og Reginn hafa hækkað um 1,8 prósent um klukkan eitt.

Veltan með bréf fasteignafélaganna er frá 125-140 milljónum króna, sem er álíka mikið og veltan með bréf Marels í dag, sem hafa hækkað um 0,1 prósent.

Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,2 prósent.

Skeljungur hefur lækkað um 1,2 prósent í fimm milljón króna viðskiptum og Icelandair um 0,9 prósent í fjögurra milljón króna viðskiptum.