Farþegum Icelandair fjölgaði um 7% í ágústmánuði í ár í samanburði við sama mánuð í fyrra og voru nú um 560 þúsund talsins. Farþegar í flugi til Íslands voru þá 261 þúsund í mánuðinum, 29% fleiri en í fyrra. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Icelandair.

Ferðir til Íslands voru langstærsti markaður flugfélagsins í mánuðinum en um 47% allra farþega keyptu ferð til Íslands. Þá fóru um 54 þúsund farþegar í ferðir frá Íslandi, sem er 14% aukning miðað við ágústmánuð í fyrra.

„Þessi aukning á markaðinum til og frá Íslandi er að hluta til komin til vegna áherslu félagsins á að draga eins mikið úr áhrifum af völdum kyrrsetningar MAX-vélanna og breytingum á samkeppninni á markaðinum,“ segir í skýrslunni.

Flugferðir Icelandair héldu þá mun oftar réttri tímaáætlun í ágúst í ár miðað við sama mánuð í fyrra. Flugin voru á réttum tíma í 75% tilvika miðað við 60% í fyrra. Félagið segist hafa farið í aðgerðir til að fækka seinkunum og að þær aðgerðir hafi heppnast vel.

Farþegum í innanlandsflugi fækkaði hins vegar um 9% frá ágústmánuði í fyrra á meðan sala á næturgistingu á hótelum Icelandair fjölgaði um 1%.