Í mars var farþegafjöldi Icelandair 268 þúsund og jókst um 3 prósent miðað við mars á síðasta ári. Fram kemur í tilkynningu frá Icelandair að framboð hafi verið aukið um sex prósent og að sætanýting hafi verið 81,2 prósent samanborið við 81,9% prósent í mars í fyrra.

Í tilkynningu kemur einnig fram að ferðamannamarkaðurinn til Íslands hafi verið stærsti markaður félagsins í mars með 45 prósent af heildarfarþegafjölda. Farþegum fjölgaði einnig mest á þessum markaði eða um 13 prósent á milli ára. Þá segir að komustundvísi í leiðakerfi félagsins í mars hafi verið 77,3 prósent og hafi batnað um 4,7 prósentustig frá síðasta ári.

Farþegum Air Iceland Connect fækkaði um 19 prósent

Farþegar Air Iceland Connect voru 23 þúsund og fækkaði um 19 prósent á milli ára. Skýrist það aðallega af flugi til Aberdeen og Belfast sem var lagt niður í maí á síðasta ári. Sætanýting nam 68,0 prósent og jókst um 8,1 prósentustig á milli ára. Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 13 prósent milli ára vegna færri verkefna en á sama tíma fyrir ári.

Gistinætur jukust um 14 prósent

Fraktflutningar jukust um 14 prósent. Seldar gistinætur hjá hótelum félagsins jukust um 14 prósent. Herbergjanýting var 77,8 prósent samanborið við 78,0 prósent í mars 2018.