Heildar­fjöldi far­þega hjá Icelandair í mars var um 123 þúsund og dróst saman um 54% á milli ára. Far­þegar Icelandair til Ís­lands voru um 67 þúsund í mars, saman­borið við 121 þúsund í mars í fyrra, og fækkaði því um 44%. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Icelandair Group.

Far­þegum frá Ís­landi fækkaði um 48% og tengi­far­þegum fækkaði um 68%. Heildar­fram­boð minnkaði um 44% á milli ára. Sæta­nýting fé­lagsins var 61.9% saman­borið við 81.2% í mars 2019. Frakt­flutningar drógust saman en mun minna en far­þega­flutningar í mars­mánuði. Á helstu flutninga­leiðum hefur allt fram­boð verið að fullu nýtt og sam­drætti í far­þega­flugi verið mætt með auka ferðum af frakt­vélum fé­lagsins til Evrópu og Banda­ríkjanna. Fjöldi far­þega hjá Air Iceland Connect var um 11 þúsund í mars­mánuði og fækkaði um 51% á milli ára.

„Út­breiðsla CO­VID-19 veirunnar og þær ferða­tak­markanir sem settar hafa verið um allan heim, hafa valdið miklum sam­drætti í eftir­spurn eftir flugi og ferða­lögum. Þetta hefur haft mikil á­hrif á starf­semi Icelandair Group, sér­stak­lega á milli­landa- og innan­lands­flug, leigu­flug­starf­semi og hótel­rekstur. Fé­lagið hefur lagt á­herslu á að halda frakt­flutningum gangandi á sama tíma og ferða­lög al­mennings eru tak­mörkuð og hafa þeir dregist mun minna saman en far­þega­flutningar á þessum tíma,“ segir í frétta­til­kynningu Icelandair Group. Flutnings­tölurnar fyrir mars­mánuði voru birtar í Kaup­höllinni í dag.

Flugáætlun félagsins komin undir 10%

„Í flutninga­tölum fé­lagsins fyrir mars­mánuð endur­speglast sú staða sem starf­semi Icelandair Group stendur frammi fyrir á þessum krefjandi tímum. Við höfum lagt á­herslu á að tryggja flug­sam­göngur til og frá landinu undan­farna daga og vikur, þrátt fyrir að flug­á­ætlun fé­lagsins sé komin undir 10% af þeirri á­ætlun sem áður hafði verið gefin út. Það er bæði á­nægju­legt og mikil­vægt að við höfum náð að halda frakt­flutningum gangandi en þar hefur á­herslan verið á út­flutning á fiski til að vernda við­kvæma markaði og inn­flutning á nauð­synja­vörum til landsins,“ skrifar Bogi Nils Boga­son, for­stjóri Icelandair Group í frétta­til­kynningu fé­lagsins.