Lögð var fram krafa um gjaldþrotaskipti flugfélagsins Play fyrir Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Þetta staðfestir Arnar Már Magnússon, forstjóri félagsins í samtali við Fréttablaðið.
Arnar vildi að öðru leyti ekki tjá sig en bauðst til þess að senda Fréttablaðinu punkta vegna málsins. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er um að ræða kröfu sem lögð er fram af Boga Guðmundssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra sölu-og markaðssviðs félagsins.
Blaðið greindi frá því í júní síðastliðnum að eigendaskipti hefðu orðið í félaginu. Í byrjun maí eignaðist félagið FEA ehf, í eigu Skúla Skúlasonar og hópsfjárfesta, alla hluta í Play.
Gerðist þetta í kjölfar þess að flugfélagið gat ekki greitt til baka brúarlán sem FEA veitti því fyrr í vetur.
Heimildir Fréttablaðsins herma að krafa Boga hljóði upp á um 30 milljónir og að um sé að ræða samblöndu af ógreiddum launum og láni sem hann veitti félaginu. Bogi var meðal stofnenda og helstu stjórnenda Play þar til í maí. Ekki hefur náðst í Boga við vinnslu fréttarinnar, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.
Frétt uppfærð kl. 14:29:
Þykir leitt að Bogi hafi farið þessa leið
Arnar Már sendi Fréttablaðinu tilkynningu vegna málsins rétt í þessu. Í tilkynningunni segir Arnar að stjórnendum félagsins þyki leitt að Bogi hafi ákveðið að fara umrædda leið gegn félaginu.
„Við unnum náið saman að því að koma PLAY á laggirnar og lögðum mikið undir þegar unnið var myrkranna á milli. Það varð hinsvegar ljóst í aðdraganda þess að nýir hluthafar komu að félaginu að Bogi ætti ekki lengur samleið með PLAY. Bogi hefur hinsvegar ekki fellt sig við þá staðreynd að hans áform gengu ekki upp.
Laun Boga hafa verið gerð upp auk uppsagnarfrests en hann vill meira og krafa þessi er liður í því. Það er því sárt að Bogi skuli reyna að bregða fæti fyrir fyrrum liðsfélaga sína með kröfum sem eru úr lausu lofti gripnar. “
Segir Arnar að endurskoðandi félagsins hafi staðfest rekstrarhæfi félagsins og að félagið geti staðið undir þeim skuldbindingum sem það hefur tekið sér á hendur.
„Við óskum þess innilega að Bogi finni sér jákvæðari og sanngjarnari farveg í lífinu. PLAY er komið til að vera. Nú eru 36 starfsmenn hjá félaginu, allt að verða tilbúið fyrir fyrsta flugið. Við bíðum aðeins eftir því að slakað verði á sóttvörnum og að við fáum að þjónusta viðskiptavini okkar á grunni sanngjarnra leikreglna.“
Yfirlýsing Play í heild sinni:
Yfirlýsing vegna kröfu Boga Guðmundssonar á hendur PLAY
Okkur þykir auðvitað leitt að það hafi komið til þess að Bogi hafi ákveðið að fara þessa leið gegn félaginu og okkur fyrrverandi samstarfsfélögum hjá PLAY. Við unnum náið saman að því að koma PLAY á laggirnar og lögðum mikið undir þegar unnið var myrkranna á milli. Það varð hinsvegar ljóst í aðdraganda þess að nýir hluthafar komu að félaginu að Bogi ætti ekki lengur samleið með PLAY. Bogi hefur hinsvegar ekki fellt sig við þá staðreynd að hans áform gengu ekki upp. Laun Boga hafa verið gerð upp auk uppsagnarfrests en hann vill meira og krafa þessi er liður í því. Það er því sárt að Bogi skuli reyna að bregða fæti fyrir fyrrum liðsfélaga sína með kröfum sem eru úr lausu lofti gripnar.
Endurskoðandi félagsins hefur staðfest rekstrarhæfi félagsins og að félagið geti staðið undir þeim skuldbindingum sem það hefur tekið sér á hendur.
Við óskum þess innilega að Bogi finni sér jákvæðari og sanngjarnari farveg í lífinu. PLAY er komið til að vera. Nú eru 36 starfsmenn hjá félaginu, allt að verða tilbúið fyrir fyrsta flugið. Við bíðum aðeins eftir því að slakað verði á sóttvörnum og að við fáum að þjónusta viðskiptavini okkar á grunni sanngjarnra leikreglna.