Ásta Sigríður Fjeldsted tók við starfi framkvæmdastjóra Krónunnar fyrir rétt um sex mánuðum síðan, en þar áður gegndi hún starfi framkvæmdastjóra Viðskiptaráðs Íslands. Áratuginn þar á undan starfaði hún erlendis, lengst af fyrir ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company. Hún vann á skrifstofum McKinsey í Kaupmannahöfn og Tókýó, þar sem hún ýmist tók þátt í eða leiddi fjölda smærri og stærri verkefna. Þar áður starfaði Ásta hjá IBM í Danmörku og þar á undan hjá stoðtækjaframleiðandanum Össuri. Ásta er 39 ára vélaverkfræðingur frá Danmarks Tekniske Universitet.

Rekstur Krónunnar hafði verið í miklum vexti árin áður en Ásta tók við starfi framkvæmdastjóra. Hún nefnir að það sé að sumu leyti vandasamara verkefni að taka við góðu búi en slæmu, enda er ekki slegið af kröfum um rekstrarafkomu þó vel gangi. Skömmu eftir að hún tók við síðasta haust hóf heimsfaraldurinn hins vegar innreið sína af krafti og ferðamenn sem voru mikilvægir viðskiptavinir hurfu. Engu að síður jókst velta Krónunnar um tæpan þriðjung á síðasta ári. „Þetta var auðvitað fordæmalaust ár. Fyrir okkur liggur styrkur í að vera kerfislega mikilvægt fyrirtæki sem má hafa opið þegar aðrir þurfa að loka, með takmörkunum þó. Langtímalokanir skóla og mötuneyta hafa skilað sér í auknum matarinnkaupum heimila. Fólk fór lítið til útlanda þannig að þetta voru 10 til 20 þúsund viðbótar viðskiptavinir sem komu við hjá okkur á síðasta ári, jafnvel þótt ferðamennina hafi vantað.“

Meðal þess sem landsmenn hafa þurft að venjast á síðastliðnum mánuðum eru takmarkanir á fjölda í verslunarrýmum landsins og hafa á tímum myndast langar raðir fyrir utan verslanir. Viðmið gagnvart matvöruverslunum hafa verið rýmri, enda vel hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð og góða loftræstingu í rýmum sem hlaupa á hundruðum, jafnvel þúsundum fermetra. „Í hertum aðgerðum í síðustu viku leit út fyrir að farið yrði í 50 manna takmörk í matvöruverslunum, en svo var því breytt í 100, eftir gott samtal við stjórnvöld,“ segir Ásta, sem segist þakka fyrir „að á Íslandi séu boðleiðir stuttar og auðveldara að ná eyrum ráðamanna og eiga gott samstarf við yfirvöld um að aðlaga regluverkið að aðstæðum, sé þess þörf.“

Ernir Eyjólfsson

Breytt hegðun neytenda

Ásta bendir á að neytendahegðun sé varanlega breytt eftir heimsfaraldurinn, „sem var eins konar hraðnámskeið í netverslun, ekki bara hér á landi“. Erlendis í umræðu um framtíð verslunar er talað um að þær breytingar sem hafa verið að gerast í verslun á síðustu árum séu meðal þeirra mestu eftir iðnbyltinguna (ef undanskilin er tilkoma stórmarkaða).

Sumar greinar verslunar eru að færast nær alfarið á netið en í greininni er því þó spáð að það muni ekki eiga við um matvöruverslun, þar vilji neytendur eiga kost á hvoru tveggja; versla á netinu og því að fara sjálfir í verslanir.

„Við finnum að neytendur gera enn þá meiri kröfur til okkar eftir faraldurinn og við verðum að stand­ast þær. Upplifun viðskiptavina okkar verður að vera jákvæð, hvort sem er innan verslana eða í snjallversluninni. Ekki bara varðandi verð og gæði heldur einnig út frá þjónustunni og heildarupplifuninni.

Þegar ég svo nýverið útskýrði fyrir erlendum kollegum hvaða launahækkanir væru í pípunum hér heima trúðu þeir mér ekki.

Meiri eftirspurn er, eins og áður sagði, eftir netverslun og fólk er farið að venjast sjálfsafgreiðslu. Við fórum hratt af stað með Snjallverslun Krónunnar í mars á síðasta ári þegar faraldurinn hófst og fórum þá að prófa frumútgáfu í samvinnu við okkar viðskiptavini. Núna er búið að slípa þjónustuna til og við afgreiðum pantanir í gegnum Snjallverslunina heim til fólks samdægurs eða daginn eftir.“

Næsta skref hjá Krónunni er innleiðing á svokölluðu „scan and go“ eða „skannað og skundað“ þar sem viðskiptavinir geta sjálfir skannað inn vörur í ve rslunum, beint ofan í körfu, greitt og gengið út og þannig einfaldað sér verslunarferðina til muna.

„Við hefjum leikinn í Krónunni í Lindum á næstunni með beta-kúnnum sem eru til í að aðstoða okkur í þróuninni. Íslendingar eru komnir með smjörþefinn af þessari mögnuðu aðferð sem netverslunin er og má segja að faraldurinn hafi verið vítamínsprautan sem þurfti til að koma þróuninni almennilega af stað hér á landi.“

Breytt störf en ekki færri

Sjálfsafgreiðslukassa og netverslun má fella í flokk sjálfvirknivæðingar. Þýðir það fækkun starfsfólks til lengri tíma?

„Það er auðvitað færra starfsfólk á kassa. En fyrir netverslunina þarftu fólk til að tína saman pantanir, fylla á í hillurnar og keyra út. Netverslunarpantanir eru tíndar úr hillunum í verslunum, en ekki af sérstökum netverslunarlager. Þrátt fyrir að sjálfsafgreiðslukassar séu tiltölulega nýkomnir til sögunnar erum við þegar með fleiri slíka kassa en þessa hefðbundnu. Hins vegar er mikil vinna sem fer fram á bak við tjöldin, þannig að starfsfólki er ekki að fækka. Fjölgun starfsfólks hjá okkur samfara aukinni veltu er hins vegar hlutfallslega minni en áður. Störfin eru líka að breytast.“

Markaðshlutdeild Krónunnar hefur aukist nokkuð á undanförnum misserum. Einkum og sér í lagi á síðasta ári, eins og mikil veltuaukning er til vitnis um. „Við erum að auka við okkar markaðshlutdeild og það er mjög ánægjulegt. Við finnum mikinn hljómgrunn fyrir því sem Krónan stendur fyrir, að vera ódýr, holl, og umhverfisvæn.

Í grunninn snýst þetta um það traust sem viðskiptavinir bera til okkar. Við leggjum okkur fram um að hafa innkaupin einföld og þægileg og svo bjóðum við líka upp á val. Við erum með það allra ódýrasta í hverjum vöruflokki, sérmerkt, þannig að hægt er að gera mjög ódýr innkaup í okkar verslunum. En vöruúrvalið er þannig að það er líka hægt að fá aðeins dýrari vöru, aukin gæði, sem þýðir að þú getur klárað öll innkaup í einni ferð hjá okkur. Sem dæmi má taka að við erum með ódýrasta pastað frá First Price en líka gæðapasta frá Jamie Oliver og Rummo sem kostar meira.

Þessi breidd í vöruúrvali gefur viðskiptavinum okkar val og getu til að klára innkaupin á einum stað. Svo er líka vert að nefna að skilin á milli svo nefndra „take-away“ matvæla og matvöruverslana eru alltaf að minnka. Við erum í auknum mæli með tilbúna og hálf-tilbúna, holla rétti á borð við „Korter í fjögur“ línuna í okkar vöruúrvali, rétti sem krefjast mjög lítillar eldamennsku.“

Það er auðvitað færra starfsfólk á kassa. En fyrir netverslunina þarftu fólk til að tína saman pantanir, fylla á í hillurnar og keyra út. Netverslunarpantanir eru tíndar úr hillunum í verslunum, en ekki af sérstökum netverslunarlager.

Fylgjast með á Facebook

Ásta leggur áherslu á að Krónan vilji eiga bein samskipti við viðskiptavini: „Okkar starfsfólk tekur virkan þátt í ýmsum spjallhópum á samfélagsmiðlum, til að mynda inni á hverfishópum á Facebook: „Við vorum að setja upp sjálfsafgreiðslukassa í verslun okkar í Breiðholti og vildum taka púlsinn á því hvernig þessi breyting væri að leggjast í viðskiptavini okkar í hverfinu. Settum inn færslu á hverfishópinn á samfélagsmiðlum og fylgdumst með því hvernig miklar og góðar umræður sköpuðust og sem við gátum tekið þátt í. Tókum til okkar þær athugasemdir og tillögur sem þar komu fram.

Umhverfismál eru órofa hluti af okkar áherslum í starfseminni og erum við sífellt að bæta okkur. Nýverið fengu allar okkar verslanir Svansvottun. Við höfum líka svarað kalli viðskiptavina um að minnka plastnotkun. Á þessu ári er markmiðið að hætta að nota plast undir þær vörur sem við pökkum sjálf, til dæmis í kjötborði. Við stefnum svo að því að nota endurvinnanlegar og niðurbrjótanlegar umbúðir í auknum mæli.

Við erum einnig með umpökkunarborð í verslunum okkar þar sem viðskiptavinir geta losað sig við umbúðir og tryggt þannig að þær verði 100% endurunnar – en sú hugmynd kom beint frá viðskiptavini. Við seljum vörur með góðum afslætti sem eru að komast á síðasta söludag, en eru enn í góðu lagi. Í sumum tilvikum höfum við líka gefið vörur sem eru farnar að láta á sjá eða komnar á síðasta söludag, undir merkinu „minnkum matarsóun“.

Þungir kjarasamningar

Samkvæmt Lífskjarasamningnum er 33 prósenta álag á dagvinnutaxta eftir klukkan 16 á daginn og helgarálag er 45 prósent. Þetta álag leggst á óháð því hversu marga tíma starfsmaður hefur unnið fyrr sama dag og því hvort starfsmaður er í hlutastarfi eða fullu starfi. Bent hefur verið á að þetta sé íþyngjandi fyrir fyrirtæki sem hafa hátt hlutfall fólks í hlutastörfum. Hlutastarfsmenn sem taki 2-3 kvöldvaktir á viku og aðra hverja helgi séu samkvæmt töxtum nánast á sömu heildarlaunum og þeir sem eru í fullu 9-5 starfi.

Mér finnst magnað að við treystum ekki öðrum en ríkinu til að selja almenningi áfengi í smásölu, sérstaklega nú þegar er hægt að panta áfengi frá erlendum heildsölum og fá sent heim að dyrum.

„Þegar ég hóf störf hér heima árið 2017 og sá hversu stífar launahækkanir voru hér miðað við það sem gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum klóraði ég mér í kollinum. Þegar ég svo nýverið útskýrði fyrir erlendum kollegum hvaða launahækkanir væru í pípunum hér heima trúðu þeir mér ekki. Launakostnaður okkar hefur hækkað um 12 til 13 prósent síðasta árið. Við leggjum okkur fram um að gera vel við okkar starfsfólk því við viljum halda þessum frábæra hópi hjá okkur. Við höfum þess vegna brugðist við með því að reyna að nýta tæknina til að auka skilvirkni og bæta þjónustu við viðskiptavini okkar.“

Segir matvælaverð á pari

Umræða um matvælaverð skýtur reglulega upp kollinum á Íslandi. Íslendingar búsettir erlendis eru óþreytandi við að benda á verðmun ákveðinna matvæla á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum.

Er matvælaverð hátt á Íslandi samanborið við önnur lönd?

„Ég hef verið að skoða þetta og ég er ekki viss um að verðlag hér heima sé jafnhátt og haldið er fram. Kaupmáttur launa á Íslandi er mjög hár og matvælakostnaður heimilanna sem hlutfall af launum er á pari við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Auðvitað fer þetta eftir því um hvaða vöru er að ræða, en almennt skiptir mestu að hafa breidd í vöruverði og að viðskiptavinir eigi kost á upplýstu vali. Því höfum við lagt okkur fram um að stórbæta merkingar á ódýrari kostum í verslunum okkar, þannig geta viðskiptavinir okkar valið hvort þeir vilji spara eða splæsa.“

„Framkvæmd laganna er allt annað en einföld sem sýnir sig best þegar úrskurðir Samkeppniseftirlitsins telja gjarnan nokkur hundruð blaðsíður eftir rannsókn á meintu broti," segir Ásta.

Samkeppniseftirlitið veldur óvissu í rekstri

Vinnubrögð Samkeppniseftlitsins hafa verið mjög til umræðu á undanförnum vikum. Festi, móðurfélag Krónunnar, hefur verið í brennidepli varðandi söluskilyrði sáttar sem fól meðal annars í sér að Festi skyldi selja verslun félagsins á Hellu.

„Samkeppni á matvörumarkaði er mikil og mér finnst mikilvægt að það sé virkt og gott samkeppniseftirlit á Íslandi – en jafnmikilvægt er að regluverkið feli í sér þann fyrirsjáanleika og réttarvissu sem almennt er talin mikilvægur hornsteinn í heilbrigðu viðskiptalífi,“ segir Ásta: „Framkvæmd laganna er allt annað en einföld sem sýnir sig best þegar úrskurðir Samkeppniseftirlitsins telja gjarnan nokkur hundruð blaðsíður eftir rannsókn á meintu broti og málsmeðferðartíma sem í sumum tilfellum er mörg ár. Sum mál fá reyndar ­aldrei endanlegan úrskurð og önnur eur felld niður án nokkurra skýringa. Íslensk fyrirtæki búa þannig við ákveðna réttaróvissu og geta legið undir grun um brot á samkeppnislögum í langan tíma með tillheyrandi tjóni fyrir alla sem að rekstri þeirra koma.

Þegar ég var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs gáfum við (VÍ, SA og Lögmannafélag Íslands) út leiðbeiningar um samkeppnisrétt. Markmið með útgáfunni var að útskýra fyrir fyrirtækjum hvernig eigi að starfa í samræmi við viðmið samkeppnisréttar og hvernig eftirlitsstofnanir túlka hann. Þrátt fyrir að hafa fengið forstjóra Samkeppniseftirlitsins til að rita formála ritsins fannst mér skorta frumkvæði og að leiðbeinandi hlutverki stofnunarinnar væri sinnt.“

Við þurfum að eiga uppbyggilegar viðræður um úrbætur þannig að samkeppnislöggjöfin nái því fram sem henni er ætlað, sem er að efla samkeppni.

„Það er enginn að biðja um bitlaust eftirlit en þeirra hlutverk getur ekki verið að valda margra ára óvissu í rekstri fyrirtækja. Samkeppniseftirlitið segir að þeirra kappsmál sé að standa vörð um hag neytenda. Gott og vel en ef við horfum til þess máls sem Festi er nú að glíma við varðandi kröfu eftirlitsins um að selja matvöruverslunina Kjarval á Hellu; hvaða hagsmuna er verið að gæta þar og fyrir hvern er möguleg niðurstaða eftirsóknarverð?

Ég held að við þurfum að taka eitt skref til baka, horfa á heildarmyndina og horfa gagnrýnið á fyrirkomulag þessara mála. Beiting samkeppnislaga er of matskennd og regluverkið er of flókið. Við þurfum að eiga uppbyggilegar viðræður um úrbætur þannig að samkeppnislöggjöfin nái því fram sem henni er ætlað, sem er að efla samkeppni. Og að við höldum áfram að byggja hér upp öflugt og verðmætaskapandi íslenskt viðskiptalíf.

Fréttablaðið/Eyþór

Jafnræðisreglan þegar brotin við sölu áfengis

„Ég hef búið erlendis meirihluta minnar fullorðinsævi. Mér finnst ansi magnað að við treystum ekki öðrum en ríkinu til að selja almenningi áfengi í smásölu, sérstaklega í ljósi þess að nú þegar er hægt að panta áfengi frá erlendum heildsölum og fá sent heim að dyrum eða fara bara á næsta bar. Jafnræðisregla er þegar brotin hér á hverjum degi. Lýðheilsusjónarmið eiga að liggja að baki þessu fyrirkomulagi og ég ber fyllstu virðingu fyrir þeim, en ég held að þeim megi mæta með öðrum hætti og að þjóðhagslegur sparnaður sé af því að aflétta þessari einokun, nýta þær verslanir sem þegar eru til staðar og spara viðskiptavinum aukaferðir eftir þessari einu vörutegund.

Sumir hafa viðrað áhyggjur af hækkandi áfengisverði, yrði breyting gerð á sölufyrirkomulaginu. Því er til að svara að með þann innkaupakraft sem fyrirtæki eins og Krónan hefur tel ég að hægt væri að ná töluvert betra innkaupaverði, en margir sem flytja inn áfengi í dag. Álagning ÁTVR er 18 prósent, flestir í dagvöruverslun myndu vel við una með slíka álagningu."