Tiantian Kullander, þrítugur stofnandi rafmyntafyrirtækisins Amber Group, fannst látinn á heimili sínu á dögunum. Svo virðist Kullander hafi látist í svefni og orðið bráðkvaddur.
New York Post greinir frá þessu og segir að rafmyntaheimurinn syrgi nú þennan þrítuga frumkvöðul.
Kullander, sem var þekktur undir nafninu TT, stofnaði Amber Group árið 2017 ásamt fyrrverandi starfsmönnum Goldman Sachs Group og Morgan Stanley. Áður hafði Kullander starfað sem verðbréfamiðlari hjá báðum fyrirtækjum.
Árið 2019 komst hann á lista Forbes, 30 Under 30, þar sem teknir eru saman ungir og efnilegir einstaklingar í fjármálaheiminum sem eiga framtíðina fyrir sér.
Amber Group hefur verið á mikilli uppleið á undanförnum árum og fyrr á þessu ári var fyrirtækið metið á þrjá milljarða Bandaríkjadala.
„Hann setti hjarta sitt og sál í fyrirtækið, allt frá stofnun þess og leiddi með góðu fordæmi,“ segir í yfirlýsingu sem birtist á vef Amber Group þar sem tilkynnt var um andlát hans. Í yfirlýsingunni kemur fram að Kullander láti eftir sig eiginkonu og ungan son.