Þeir fjárfestar sem tóku þátt í skuldabréfaútboði WOW air í fyrra og eignuðust þannig kauprétti að hlutabréfum í flugfélaginu hafa samþykkt að falla frá kaupréttunum. Þetta kemur fram í tilkynningu sem WOW air birti á fjárfestavef sínum síðdegis í dag.

Niðurfelling umræddra kauprétta, sem samið var um í 60 milljóna dala skuldabréfaútboði flugfélagsins sem lauk í september í fyrra, er skilyrði þess að fjárfesting bandaríska félagsins Indigo Partners í WOW air gangi eftir.

Í tilkynningu WOW air kemur fram að í kjölfar skuldabréfaútboðsins, nánar tiltekið þann 2. nóvember, hafi flugfélagið gefið út kauprétti til skuldabréfaeigendanna að hlutafé í félaginu. 

Í tengslum við viðræður Indigo Partners og WOW air hafi síðarnefnda félagið hins vegar skuldbundið sig til þess að gera ákveðnar breytingar á skilmálum skuldabréfanna sem fólust meðal annars í því að kaupréttirnir yrðu felldir niður. Segir í tilkynningu WOW air í dag að allir kaupréttarhafarnir hafi nú samþykkt að fella niður kaupréttina.

Þeir sem tóku þátt í skuldabréfaútboðinu fengu sem kunnugt er kauprétt að hlutafé sem nemur helmingi af höfuðstól skuldabréfanna. 

Greint var frá því fyrr í dag að nægilega margir skuldabréfaeigendur WOW air hefðu fallist á tillögur að breytingum á skilmálum skuldabréfanna. Á meðal breytinga sem gerðar hafa verið frá fyrri skilmálum eru að skuldabréfin verða lengd um tvö ár og afskráð úr kauphöll.

Frétt Fréttablaðsins: Samþykktu skilmálabreytingar á skuldabréfum WOW

Sem kunnugt er hafa Indigo Partners og WOW air komist að samkomulagi um að bandaríska fjárfestingafélagið fjárfesti fyrir allt að 75 milljónir dala, jafnvirði tæplega 9,4 milljarða króna, í flugfélaginu.

Indigo Partners mun til að byrja með eignast 49 prósenta hlut í WOW air, gangi kaup félagsins í flugfélaginu eftir. Kjósi fjárfestingafélagið hins vegar að nýta sér breytirétt, sem kveðið er á um í skilmálum lánssamnings félaganna tveggja, gæti það eignast stærri hlut í WOW air.

Fjárfesting Indigo Partners verður aðallega í formi láns til tíu ára með breytirétti í hlutafé.