Erlend kortavelta án flugsamgangna nam 16,2 milljörðum í maí og dregst hún saman um 13,1 prósent á milli ára. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Þar segir að hlutfallsleg lækkun í kortunum sé nokkuð minni en fækkun ferðamanna samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia en hún var 24 prósent frá sama mánuði í fyrra.

„Fall WOW air er vafalaust stærsti einstaki þátturinn sem veldur lækkun kortaveltunnar frá fyrra ári. Tölur Rannsóknasetursins sýna kortaveltuna án flugsamgangna og mæla því ekki bein áhrif minni miðakaupa þess flugfélags heldur þau óbeinu áhrif sem felast í fækkun ferðamanna,“ segir í tilkynningu á vef Rannsóknaseturs verslunarinnar.

Gengi krónunnar hefur veikst um 12 prósent um það bil frá maí í fyrra. Innlendar ferðaafurðir sem seldar eru í krónum eru því þeim mun ódýrari í augum erlendra ferðamanna en fyrir ári síðan. Sé lækkun kortaveltunnar í mánuðinum reiknuð í erlendri mynt lætur nærri að hver ferðamaður hafi að eytt svipaðri fjárhæð hérlendis samanborið við maí í fyrra. Í íslenskum krónum jókst aftur á móti kortavelta á hvern ferðamann um 13,6 prósent.

Verulegur hluti þess sem útlendingar greiða fyrir hérlendis með kortum sínum fer í gegn um netsölu. Sá hluti er oftar en ekki pöntun fram í tímann á þjónustu sem neyta á síðar.

Samdráttur í kortaveltu í gegnum posa nam tæplega 17 prósent en samdráttur um net var rúmlega 5 prósent. Stærsti flokkurinn í netsölu, bæði hlutfallslega og mælt í veltu er ýmis ferðaþjónusta en hann inniheldur afþreyingaferðir, ferðaskipuleggjendur og álíka.

Um 70 prósent kortaveltuflokksins kemur í gegn um netið, 2,5 milljarðar króna, og dróst sá hluti einungis saman um tæpt eitt prósent frá fyrra ári.

„Gæti þetta verið til marks um að hlutfallslegur samdráttur verði minni þegar líður á sumarið en raungerðist í maí.“

Samdráttur varð í heildarveltu korta nánast allra þjóðerna. Kortavelta bandarískra ferðamanna nam í maí rúmum 6,5 milljörðum króna. Á sama tíma í fyrra var heildarvelta þeirra tæpir 7,3 milljarðar og nemur lækkunin 10,1 prósent á milli ára. Svipaða sögu er að segja af kortaveltu ferðamanna frá Bretlandi, nam samdrátturinn þar 15,7 prósent á milli ára.