Þarna eru menn að nálgast verkefnið á rangan hátt. Það er mikill þrýstingur á bæjaryfirvöld að fá ljósleiðara enda er hraði nettenginga eitt af þeim málum sem brenna hvað mest á landsbyggðinni,“ segir Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, í samtali við Markaðinn. Þar, eins og víðar á landsbyggðinni, hefur lagning ljósleiðara verið bundin við dreifbýlið á meðan þéttbýlið situr uppi með kopartengingar.

„Það að búa ekki við þessa þjónustu er ólíðandi og hamlandi. Nútímatækni skiptir jafnmiklu máli í þéttbýli á landsbyggðinni og á höfuðborgarsvæðinu,“ bætir hann við.

Drög að markaðsgreiningu Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) eru nú til umsagnar, en í þeim tekur stofnunin þá afstöðu að enn þá sé til staðar staðganga milli kopar- og ljósleiðaraneta. Staðganga þýðir að verð þjónustunnar sé sá þáttur sem ræður mestu um val neytenda á internetþjónustuveitanda. Næst á eftir komi gæði þjónustu þjónustuveitandans og í þriðja sæti sé hraði. Þetta bendir til þess að mismunandi möguleikar á hraða í kopar- og ljósleiðaratengingum sé ekki mjög afgerandi þáttur þegar kemur að vali neytenda.

Með því að skilgreina ljósleiðara- og kopartengingar þannig að staðganga sé þeirra á milli, verður markaðsstaða Mílu, sem á og rekur helstu fjarskiptainnviði landsins, sterkari í augum PFS. Haft var eftir Jóni Ríkharði Kristjánssyni, framkvæmdastjóra Mílu, í Markaðinum í síðustu viku að PFS gæti þannig réttlætt frekari kvaðir Mílu sem bitna á lagningu ljósleiðara á landsbyggðinni.

„Fáir spá í hvort þeir þurfi að borga nokkrum hundraðköllum meira til fjarskiptafyrirtækja. Þess vegna eru íbúar eins og í Snæfellsbæ að kalla eftir því að fá ljósleiðara.“

„Afstaða stofnunarinnar vekur óhjákvæmilega upp tvær spurningar. Annars vegar hvort ljósleiðaravæðing sé óþörf þar sem kopartengingar eru fyrir. Og hins vegar hvort hægt sé að leysa internetmál þéttbýlisstaða úti á landi með lægra verði til endanotenda á tengingum yfir kopar. Að mati Mílu er þetta ekki í neinu samræmi við áherslur sveitarstjórna, stefnu stjórnvalda, markaðssetningu fjarskiptafélaga og vilja neytenda,“ sagði Jón Ríkharður.

Þegar skipt var um vatnslagnir í einni götu í Ólafsvík í fyrra, nýtti Míla tækifærið og lagði ljósleiðara í götuna. Kristinn bæjarstjóri bendir á að allir íbúar í götunni hafi valið ljósleiðara fram yfir kopartengingu/ljósnet.

„Hvers vegna velur fólk ljósleiðarann? Vegna þess að hraðinn skiptir mestu máli og þau tækifæri sem honum fylgja, en fáir spá í hvort þeir þurfi að borga nokkrum hundraðköllum meira til fjarskiptafyrirtækja. Þess vegna eru íbúar eins og í Snæfellsbæ að kalla eftir því að fá ljósleiðara inn til sín,“ segir Kristinn.